Almennt ferli rammaáætlunar ætti ekki að taka lengri tíma en 24 mánuði samkvæmt tillögum sem starfshópur um endurskoðun rammaáætlunar, skilaði í dag Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Í janúar 2024 fól Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sérstökum starfshópi að skoða og gera tillögur um endurmat á lögum um rammaáætlun, til að tryggja skilvirka, ábyrga og skynsamlega nýtingu og vernd landsvæða á Íslandi.

Í skýrslu starfshópsins, sem kynnt var í dag, er gert ráð fyrir ýmsum breytingum á lögum og reglum um rammaáætlun sem miða að því að einfalda kerfið og auka skilvirkni.

Hópurinn leggur m.a. til að skilvirkni rammaáætlunar verði aukin með „fastákveðnum tímafrestum“ þannig að almennt verði ferli rammaáætlunar ekki lengra en 24 mánuðir.

Þá er lagt til að ferli rammaáætlunar verði samfelluverkefni en eigi sér ekki einungis stað á fjögurra ára fresti. Gert verði ráð fyrir einu samráðsferli hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar í stað tveggja.

Meðal tillagan er að frestur sveitarstjórna til ákvörðunar um landnotkun verði styttur. Jafnframt verði heimild og skylda verkefnisstjórnar rammaáætlunar til að afmarka verndarsvæði í áætluninni skýr og ótvíræð.

Þá er lagt til að ráðherra verði heimilt á grundvelli skilyrða að veita undanþágu til matsskyldra rannsókna á virkjunarhugmyndum fyrir virkjunarkosti í biðflokki.

„Kastljósinu var beint að orkumálum á ný á þessu kjörtímabili eftir alltof langt hlé. Lög um rammaáætlun eru orðin um 14 ára gömul. Miklu skiptir að farið sé yfir og skoðað hvernig reynslan af þeim hefur verið og reynt að finna hvað megi breyta og bæta þannig að ferlið verði einfaldara og betra. Starfshópurinn hefur í skýrslu sinni komið með fjölmargar góðar og ítarlegar ábendingar um hvernig tryggja megi skilvirka og ábyrga nýtingu og vernd landsvæða á Íslandi. Nú verður það verkefni stjórnvalda á næstu misserum að taka tillögurnar til frekari skoðunar og leggja til breytingar á lögunum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra‏, í tilkynningu.

Starfshópinn skipuðu þau: Hilmar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður, formaður, Björt Ólafsdóttir, fyrrv. alþingismaður og ráðherra umhverfismála, og Kolbeinn Óttarsson Proppé, frv. alþingismaður.

Skýrslan ásamt drögum starfshópsins að frumvarpi er nú komin í Samráðsgátt stjórnvalda þar sem hægt verður að koma með umsagnir og ábendingar til 1. febrúar nk.