Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE), næst stærsti lífeyrissjóður landsins, hefur skorað á stjórnir skráðra félaga sem sjóðurinn er hluthafi í að gæta hófs varðandi hækkun stjórnarlauna. Sjóðurinn telur eðlilegt að horft sé til 3,5% hækkana í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.

„Fyrir liggur að þegar hafa komið fram tillögur að hækkun stjórnarlauna sem eru allnokkuð umfram þær almennu hækkanir sem samið hefur verið um í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði,“ segir í bréfi sem sjóðurinn sendi um miðjan febrúarmánuð til allra skráðra íslenskra félaga sem sjóðurinn er hluthafi.

Stefán Sveinbjörnsson, stjórnarformaður LIVE og framkvæmdastjóri VR, er skrifaður fyrir bréfinu sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

LIVE segist telja eðlilegt að við ákvörðun á kjörum stjórnarmanna sé horft til hækkana í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Samkvæmt þeim séu almennar hækkanir á árinu 3,5% eða að lágmarki 23.750 krónur.

„Með því leggist aðilar vinnumarkaðarins og fyrirtæki á eitt við að draga úr hækkun verðbólgu og þar með styðja við áframhaldandi lækkun vaxta. Það er að mati sjóðsins mikilvægt, í þágu fyrirtækja í eignasafni lífeyrissjóðsins og þar með sjóðfélaga.“

Stefán tekur þó fram að það kunni eftir atvikum að vera eðlilegt að taka tilli til þróunar stjórnarlauna undanfarinna ára.

Horfi til launaþróunar í fortíð, ekki framtíð

Fljótt á litið virðist vera mismunandi hvort stjórnir skráðra félaga hafi lagt til fyrir aðalfundi í ár að hækka stjórnarlaun um 3,5% eða umfram það. Meðal félaga sem lögðu til að þóknanir stjórnarmanna yrðu hækkaðar um 3,5% eða minna eru Íslandsbanki, Reitir, Heimar, Síminn, Skagi og Sjóvá. Önnur félög hafa miðað hækkanir stjórnarlauna við almenna launaþróun.

Fjallað er um bréf LIVE í skýrslu tilnefningarnefndar Arion banka fyrir aðalfund bankans sem fór fram í síðustu viku.

„Tilnefningarnefnd Arion banka vekur athygli á því að grundvallarnálgun nefndarinnar í þessum efnum byggir á því að líta til launaþróunar í fortíð, ekki framtíð.

Þannig er horft til þeirra raunhækkana sem orðið hafa á launum síðastliðið ár, innan bankans sem og á almennum vinnumarkaði, og þess gætt að hækka ekki stjórnarlaun umfram þær hækkanir sem orðið hafa.“

Í ár hafi legið fyrir að laun innan og utan bankans hafi hækkað að meðaltali 7% árið 2024. Tillaga nefndarinnar, sem var samþykkt á aðalfundinum, miði við að stjórnarlaun Arion hækki eilítið minna eða um 6%.

„Launahækkanir á almennum launamarkaði á yfirstandandi ári 2025, hverjar sem þær kunna að verða þegar horft verður til baka að ári, munu fyrst koma til álita eftir eitt ár, við tillögugerð vegna stjórnarlauna fyrir árið 2026. Tilnefningarnefnd telur þessa nálgun einfalda og skilvirka leið til að tryggja að þróun stjórnarlauna Arion banka sé ávallt í samræmi við launaþróun innan og utan bankans.“

Við ákvörðun stjórnarlauna horfa starfskjaranefndir skráðra félaga gjarnan til almennrar launaþróunar og þróunar launavísitölu fyrir liðið ár sem og launabreytinga hjá stjórnendum samkvæmt almennum launakönnunum eða Hagstofu Íslands.

Sem dæmi er nefnt í skýrslu starfskjaranefndar Festi að launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 6,4% í fyrra og vísitala grunnlauna hækkaði um 6,5% yfir sama tímabil. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni frá því í október sl. nam ársbreyting vísitölu grunnlauna starfsmanna á almennum vinnumarkaði 6,9%, stjórnenda 5,7%, sérfræðinga 6,8% og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks 7,6%. Þá hafi almenn hækkun launaþróunar innan félaga samstæðu Festi verið á bilin 6,3-11,7% í fyrra.

Starfskjaranefndin lagði til að þóknun stjórnarmanna myndi hækka um 7,0% frá fyrra starfsári og vera 460 þúsund krónur á mánuði (hærri í tilviki formanns og varaformanns). Tillagan var samþykkt á aðalfundi Festi.

Einnig má benda á að VR er með eigin launavísitölu sem sýnir fram á talsvert hærri hækkanir en þær sem Stöðugleikasamningurinn kveður á um. Frá janúar 2024 til desember 2024 hækkaði launavísitala VR um 6,6%.