Íslenskir stjórnmálaflokkar fengu samtals úthlutað tæplega 10 milljörðum króna úr ríkissjóði, á verðlagi dagsins í dag, á tímabilinu 2010-2024. Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur verið stærsti flokkur landsins á tímabilinu, er sá flokkur sem hefur fengið hæsta úthlutun úr ríkissjóði á tímabilinu, eða alls rúmlega 2,4 milljarða á verðlagi dagsins í dag.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið úthlutað 53% meira en Vinstri græn, sem hafa fengið næsthæstu úthlutunina á tímabilinu, eða alls tæplega 1,6 milljarða.

Eins og Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, benti nýlega á í aðsendri grein á Vísi hefur flokkurinn lengi talað fyrir breytingum á fjármögnun stjórnmálaflokka, þar á meðal algjöru afnámi opinberra styrkja og benti á að   stjórnmálaflokkum væru settar þröngar skorður við að fjármagna sig upp á eigin spýtur. Lögum samkvæmt mega flokkarnir aðeins taka við framlögum upp á 550 þúsund krónur frá lögráða einstaklingum á ári hverju. Stjórnmálafélögum innan samstæðu stjórnmálaflokks er þó heimilt að taka á móti framlögum umfram þetta frá einstaklingum, eða sem nemur að hámarki 100 þúsund krónum. Sömu reglur gilda um framlög lögaðila til stjórnmálaflokka.

„Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins ályktaði fundurinn að afnema skyldi opinbera styrki til stjórnmálaflokka og hækka hámarksframlag annarra aðila í staðinn. Þessari ályktun hafa þingmenn flokksins fylgt eftir í verki. Hefur Diljá Mist Einarsdóttir t.a.m. ítrekað lagt fram frumvarp sem miðar að því að draga úr opinberum styrkjum til stjórnmálaflokka og auðvelda þeim sjálfstæða tekjuöflun. Í því frumvarpi er einnig lagt til að þröskuldurinn til að hljóta framlag frá hinu opinbera skuli hækkaður úr 2,5% í 4% atkvæðamagn. Þetta tryggir að flokkarnir verði áfram bundnir af skýrum reglum um gagnsæi, og framlög frá óþekktum aðilum verða áfram bönnuð,“ skrifaði Hildur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.