Stóru eignastýringarfélögin vestanhafs eru að undirbúa sig undir að setja þrýsting á Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, til að veita þeim aðgang að fjármunum sem félögunum hefur hingað til ekki verið leyft að sækja, m.a. í eftirlaunasparnað einstaklinga.
Samkvæmt Financial Times gætu lagabreytingar þeim í hag opnað fyrir billjóna (e. trillion) dala af fjármagni sem eignastýringafélögin hafa ekki haft aðgang að hingað til.
Um er að ræða breytingar sem myndu til að mynda að leyfa skattfrjálsum lífeyrissjóðsreikningum, eins og 401(k)-áætlunum, að fjármagna óskráð fjárfestingartæki, eins og skuldsettar yfirtökur og lánsveð með lágri lánshæfiseinkunn, samkvæmt framkvæmdastjórum sem FT ræddi við.
Framkvæmdastjórarnir segja að þetta gæti gefið sjóðum með hærri þóknunargjöldum tækifæri til að nýta sér fjárfesta með jafn miklar eignir og ríkissjóðir, lífeyrissjóðir og fjárveitingasjóðir sem hafa hefðbundið stutt við stærstu fyrirtæki heimsins, eins og Blackstone, Apollo Global og KKR.
Einkafjárfestingar- og óskráðir fasteignasjóðir hafa hingað til verið takmarkaðir við stofnanafjárfesta eða auðuga einstaklinga vegna þess að þeir fela oft í sér meiri skuldsetningu, minni seljanleika og verri upplýsingagjöf en hefðbundnir sjóðir og kauphallarsjóðir.
Þeir eru einnig almennt með hærri gjöld en erfiðara getur verið fyrir fjárfesta að meta árangur þeirra.
„Við munum leita tækifæra til að leyfa meðalfjárfestum, ef þeir vilja, að auka fjölbreytni í eignasafni sínu og hafa sama aðgang og auðugir einstaklin hafa að einkafjárfestingarsjóðum,“ sagði einn lobbíisti í Washington. „Það eru 4.000 skráð [bandarísk] fyrirtæki. Flestir fjárfesta í gegnum þessi fyrirtæki, en það eru 25 milljónir einkafyrirtækja þarna úti.“
Framkvæmdastjórarnir sem Financial Times ræddi við segja að þetta afreglunarátak væri sambærilegt við að „tvöfalda eftirspurn“ eftir hinum ýmsu sjóðum einkafjárfestingariðnaðarins.
Marc Rowan, forstjóri Apollo, hefur nefnt billjónirnar sem eru í 401(k)-áætlunum Bandaríkjamanna sem séu tækifæri fyrir iðnaðinn.
Hann hefur lýst yfir áhyggjum af þeirri einbeitingu sem er í vísitölusjóðum sem eru í eigu eftirlaunasparenda og velt fyrir sér hvort slíkir fjárfestar þurfi endilega að vera bundnir við sjóði sem bjóða daglegan seljanleika.