Stóru eignastýringarfélögin vestan­hafs eru að undir­búa sig undir að setja þrýsting á Donald Trump, verðandi for­seta Bandaríkjanna, til að veita þeim að­gang að fjármunum sem félögunum hefur hingað til ekki verið leyft að sækja, m.a. í eftir­launa­sparnað ein­stak­linga.

Sam­kvæmt Financial Times gætu laga­breytingar þeim í hag opnað fyrir billjóna (e. trillion) dala af fjár­magni sem eignastýringafélögin hafa ekki haft að­gang að hingað til.

Um er að ræða breytingar sem myndu til að mynda að leyfa skatt­frjálsum líf­eyris­sjóðs­reikningum, eins og 401(k)-áætlunum, að fjár­magna óskráð fjár­festingar­tæki, eins og skuld­settar yfir­tökur og lánsveð með lágri láns­hæfis­ein­kunn, sam­kvæmt fram­kvæmda­stjórum sem FT ræddi við.

Fram­kvæmda­stjórarnir segja að þetta gæti gefið sjóðum með hærri þóknunar­gjöldum tækifæri til að nýta sér fjár­festa með jafn miklar eignir og ríkis­sjóðir, líf­eyris­sjóðir og fjár­veitinga­sjóðir sem hafa hefðbundið stutt við stærstu fyrir­tæki heimsins, eins og Black­stone, Apollo Global og KKR.

Einka­fjár­festingar- og óskráðir fast­eigna­sjóðir hafa hingað til verið tak­markaðir við stofnana­fjár­festa eða auðuga ein­stak­linga vegna þess að þeir fela oft í sér meiri skuld­setningu, minni seljan­leika og verri upp­lýsinga­gjöf en hefðbundnir sjóðir og kaup­hallar­sjóðir.

Þeir eru einnig al­mennt með hærri gjöld en erfiðara getur verið fyrir fjár­festa að meta árangur þeirra.

„Við munum leita tækifæra til að leyfa meðal­fjár­festum, ef þeir vilja, að auka fjöl­breytni í eigna­safni sínu og hafa sama að­gang og auðugir ein­staklin hafa að einka­fjár­festingar­sjóðum,“ sagði einn lobbíisti í Was­hington. „Það eru 4.000 skráð [bandarísk] fyrir­tæki. Flestir fjár­festa í gegnum þessi fyrir­tæki, en það eru 25 milljónir einka­fyrir­tækja þarna úti.“

Fram­kvæmda­stjórarnir sem Financial Times ræddi við segja að þetta af­reglunará­tak væri sam­bæri­legt við að „tvöfalda eftir­spurn“ eftir hinum ýmsu sjóðum einka­fjár­festingariðnaðarins.

Marc Rowan, for­stjóri Apollo, hefur nefnt billjónirnar sem eru í 401(k)-áætlunum Bandaríkja­manna sem séu tækifæri fyrir iðnaðinn.

Hann hefur lýst yfir áhyggjum af þeirri ein­beitingu sem er í vísitölu­sjóðum sem eru í eigu eftir­launa­spar­enda og velt fyrir sér hvort slíkir fjár­festar þurfi endi­lega að vera bundnir við sjóði sem bjóða dag­legan seljan­leika.