Starfshópur sem Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, skipaði í lok árs 2022 hefur skilað af sér skýrslu þar sem hann leggur til til tvíþætta breytingu á réttarstöðu við fasteignakaup.

Í fyrsta lagi er lagt til að auka skyldu seljanda til upplýsingagjafar um ástand fasteignar sem hann býður til sölu, með því að gera að lagaskyldu að seljandi fylli út og undirriti spurningalista með stöðluðum spurningum um ástand og viðhald fasteignar.

Í öðru lagi að lögfest verði heimild í lög um fasteignakaup, nr. 40/2002, um að kaupandi fasteignar geti, innan 48 klst. frá því að samþykki kauptilboðs kemst til vitundar hans, óskað eftir því að fram fari ástandsskoðun á þeirri fasteign sem um ræðir.

Með því vill starfshópurinn að óheimilt væri að semja frá sér rétt til þess að óska eftir slíkri ástandsskoðun með fyrirframgefnu afsali. Hugsunin sé sú að gera alla tilboðsgjafa jafnsetta ef fasteignaviðskiptin fara fram í svonefndum „seljendamarkaði“

„Telur starfshópurinn að eðlileg afleiðing þeirra nýmæla sem hér eru lögð til verði ríkari leiðbeiningarskylda af hálfu fasteignasala við sölu fasteignar, bæði varðandi veitingu upplýsinga til seljenda um þýðingu slíkrar upplýsingagjafar og til kaupanda með ráðleggingum um heimildina til að óska eftir ástandsskoðun fasteignar í samræmi við útfyllingu slíks spurningalista af hálfu seljanda fasteignarm,“ segir í samantektarkafla skýrslunnar.

„Önnur afleiðing verður sú að tryggt verður að betri upplýsingar liggi fyrir um ástand fasteignar, með tilheyrandi fækkun á ágreiningsmálum í kjölfar sölu á íbúðarhúsnæði, enda aukast líkurnar þá eðli málsins samkvæmt á hnökralausum fasteignaviðskiptum og meiri líkur verða á að mögulegir gallar á fasteign verði leiddir í ljós á fyrri stigum viðskiptanna.“

Í starfshópinn voru skipuð: Pétur Örn Sverrisson hrl., formaður hópsins, Einar Bjarni Einarsson, fulltrúi Neytendasamtakanna, Friðrik Á. Ólfasson, fulltrúi Samtaka iðnaðarins, Tinna Andrésdóttir, fulltrúi Húseigandafélagsins, Hannes Steindórsson, fulltrúi Félags fasteignasala, og Sóldís Rós Símonardóttir, fulltrúi menningar- og viðskiptaráðuneytisins og starfsmaður hópsins.

Tillögur starfshópsins liggja nú fyrir í Samráðsgátt til umsagnar.