Tilnefningarnefnd Arion banka hefur lagt til að Kristín Pétursdóttur, fyrrverandi forstjóri Auðar Capital og fyrrum stjórnarmaður hjá Kviku, verði kjörin í stjórn bankans auk allra fimm sitjandi stjórnarmanna á aðalfundi bankans sem fer fram þann 15. mars.
„Tillaga tilnefningarnefndar leiðir af sér að stjórn bankans verði skipuð sex einstaklingum næsta starfsárið, þremur konum og þremur körlum. Í samþykktum bankans er kveðið á um að stjórn félagsins skuli skipuð fimm til átta stjórnarmönnum og að atkvæði formanns ráði úrslitum,“ segir í skýrslu nefndarinnar.
Á aðalfundi Arion fyrir tveimur árum var samþykkt að í aðalstjórn bankans yrðu fimm einstaklingar en þeir höfðu verið sjö frá fjármálahruninu. Verði tillaga nefndarinnar samþykkt mun þeim fjölga aftur um einn.
Nefndin leggur til að eftirtalin verði kjörin í stjórnina:
- Brynjólfur Bjarnason, stjórnarformaður
- Paul Horner, varaformaður
- Liv Fiksdahl, stjórnarmaður
- Gunnar Sturluson, stjórnarmaður
- Steinunn Kristín Þórðardóttir, stjórnarmaður
- Kristín Pétursdóttir
Kristín er annar stofnenda Auðar Capital og starfaði sem forstjóri þess fyrirtækis frá 2007 til 2013 og sem stjórnarformaður frá 2013-2017. Þá var hún stjórnarformaður Kviku banka á árunum 2018-2020, forstjóri Mentor 2015-2017, framkvæmdarstjóri fjárstýringar Kaupþings banka 1997-2005 og aðstoðarforstjóri Singer & Friedlander 2005-2007. Kristín hefur einnig setið í stjórnum Ölgerðarinnar, Eyris Invest, Viðskiptráðs, SA og SFF.
Í tilnefningarnefnd Arion sitja Auður Bjarnadóttir, Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir og Júlíus Þorfinnsson, sem er formaður nefndarinnar.
Nefndin lagði einnig til að Sigurbjörg Ásta og Þröstur Ríkharðsson verði endurkjörin í varastjórn.