Fjórir þingmenn Vinstri grænna og einn þingmaður Pírata hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að banna auglýsingar á jarðefnaeldsneyti og vörum sem tengjast framleiðslu og notkun slíkra orkugjafa.
Þingmennirnir telja að það ekki dugi að leggja eingöngu bann við auglýsingum olíufyrirtækjanna sjálfra heldur yrði bannið einnig að ná til þeirrar vöru og þjónustu sem nýtir þessa orkugjafa í miklum mæli „t.d. bíla, flugferða og ferða með skemmtiferðaskipum“.
Í greinargerð tillögunnar segir að loftslagsváin krefjist tafarlausra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hraða orkuskiptum yfir í sjálfbæra orkugjafa. Jarðefnaeldsneyti sé um þessar mundir ein helsta ógnin við loftslag jarðar.
„Markaðssetning jarðefnaeldsneytis er ekki ósvipuð því sem tóbaksiðnaðurinn stundaði svo áratugum skipti – að hylma yfir skaðsemi vöru sem veldur óbætanlegu tjóni. Lönd víðs vegar um heim hafa bannað auglýsingar á tóbaki með þeim rökum að slíkar auglýsingar ýti undir neyslu sem hefur alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar.“
Þingmennirnir segja því ekki aðeins réttlætanlegt heldur nauðsynlegt að beita svipaðri aðferðafræði og beitt var gegn tóbaksnotkun til að draga úr olíunotkun.
„Bann við auglýsingum á jarðefnaeldsneyti væri þannig til þess fallið að vinna gegn normalíseringu á neyslu jarðefnaeldsneytis og annarrar kolefnislosandi vöru og væri þannig liður í þeirri hugarfarsbreytingu sem er grundvöllur að kolefnishlutlausri og lífvænlegri framtíð.“
Bent er á að António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur á undanförnum árum hvatt ríki til að banna auglýsingar olíufyrirtækja sem og hvatt fjölmiðla og samfélagsmiðlafyrirtæki til að hætta að birta auglýsingar á jarðefnaeldsneyti.
Fordæmi frá Frakklandi og nokkrum heimsborgum
Í greinargerðinni segir að bönn við auglýsingum sem tengjast jarðefnaeldsneyti eigi sér nú þegar fordæmi. Frakkland hafi til að mynda samþykkt slíkt bann árið 2022. Auk þess hafi borgir á borð við Amsterdam, Edinborg og Sydney hafa einnig innleitt valkvæðar viðmiðunarreglur um auglýsingar af þessu tagi.
Þá hafi hollenska borgin Haag í fyrra orðið fyrsta borgin í heimi í til að samþykkja bindandi löggjöf sem bannar auglýsingar á vörum og þjónustu sem tengjast jarðefnaeldsneyti og annarri kolefnislosandi starfsemi, svo sem skemmtiferðaskipum og flugferðum.
Flutningsmenn tillögunnar eru Eva Dögg Davíðsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Orri Páll Jóhannsson, Jódís Skúladóttir og Andrés Ingi Jónsson.