Hópur bandarískra þingmanna hefur kallað eftir því að kínverska fyrirtækið Amperex Technology verði sett á bannlista og fái ekki að flytja inn vörur sínar til Bandaríkjanna. Fyrirtækið er einn stærsti framleiðandi rafhlaða í heiminum en þingmennirnir segja að það notist við nauðungarvinnu.

Samkvæmt fréttamiðlinum WSJ eru nokkur kínversk rafhlöðufyrirtæki með tengsl við Ford Motor og Volkswagen, þar á meðal kínverska fyrirtækið Gotion High-Tech sem er að hluta í eigu Volkswagen.

Ákallið frá þingmönnunum er í tengslum við lagafrumvarp sem kallast Uyghur Forced Labor Prevention Act, sem bannar innflutning á vörum sem framleiddar eru í nauðungarvinnu af einstaklingum úr Úígúra-minnihlutahópnum í Xinjiang.

Bréfið var sent til bandaríska heimavarnarráðuneytisins frá þingmönnum Repúblikanaflokksins, John Moolenaar, yfirmanni valnefndar þingsins um kínverska kommúnistaflokkinn, Mark Green, formanni heimavarnarnefndar fulltrúadeildar, og öldungadeildarþingmanninum Marco Rubio.

Volkswagen sagði nýlega að sending fjölda bíla frá fyrirtækinu hefði verið stöðvuð í bandarískum höfnum eftir að greint var frá því að þeir innihéldu íhluti frá fyrirtækjum á bannlistanum. Fyrirtækið hefur einnig verið gagnrýnt vegna verksmiðju í Xinjiang sem Volkswagen rekur í samvinnu við kínverskt ríkisfyrirtæki.