Sigurður P. Snorrason, aðaleigandi RVK Bruggfélags, vinnur nú hörðum höndum að því að fá leyfi fyrir viðburðarhaldi í gamla Tónabíósalnum við Skipholt 33.
Hann vonast eftir því að fá leyfið í byrjun næsta árs ef ekkert óvænt skyldi koma upp á. RVK Bruggfélag var stofnað árið 2017 og var fyrst með 50 þúsund lítra framleiðslugetu í bakskúr fyrir aftan Skipholt 31.
Starfsemin var svo flutt í mun stærra brugghús í bakhúsi við Tónabíó í Skipholti 33. Ný og stærri bruggstofa á vegum RVK Bruggfélagsins opnaði um miðjan júní á þessu ári en umræður hafa verið milli eigenda hússins og eigenda bruggfélagsins um að það þyrfti að endurvekja gamla bíósalinn við hlið barsins.
Tónabíó opnaði í apríl 1963 og var vinsælt kvikmyndahús sem sýndi myndir frá United Artists og kvikmyndaraðir á borð við spagettívestra Sergio Leone og James Bond. Árið 1990 var bíóið keypt af Stórstúku Íslands sem byrjaði með bingókvöld og fékk húsið í kjölfarið heitið Vinabær.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.