Sæbjörg Eva Hlynsdóttir, stofnandi, verkefnastjóri og höfundur kennsluefnis Tónakistunnar, útskrifaðist úr skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands árið 2023. Lokaverkefni hennar á þeim tíma var hugmynd sem myndi síðar meir breytast í Tónakistuna.

Hún segir að hugmyndin hafi fyrst kviknað þegar hún vann á leikskóla árið 2018. Sæbjörg var sjálf starfandi tónlistarkona en átti erfitt með að kenna í tónlistarstund með börnunum og fór þá að hugsa hvort það væri hægt að koma með auðveldari tól fyrir leiðbeinendur.

Sæbjörg segir að markmiðið sé ekki að búa til einhverja tónlistarsnillinga, heldur að gera tónlist aðgengilega og út frá því geti krakkar farið í frekara tónlistarnám. Sæbjörgu finnst líka mikilvægt að varðveita íslenska dægurtónlist og vonast hún til að tvinna saman Tónakistuna og menningararf Íslendinga.

„Tónlist er líka mjög mikilvæg fyrir lítil börn upp á heilaþroska að gera og með því að virkja heilann í gegnum sköpun og tónlist myndast taugabrautir sem endast út lífið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.