Ný íslensk raftækjaverslun undir nafninu Lune var hefur verið stofnuð en fyrirtækið á bak við verslunina segist vilja bjóða viðskiptavinum betri verð en þau sem hafa áður sést á íslenskum markaði.
Stofnendur Lune eru þeir Gunnar Máni Arnason og Hafþór Ægir Vilhjálmsson en þeir hafa báðir mikla reynslu í sölu og þjónustu raftækja.
„Við Hafþór höfum báðir samanlagða 20 ára reynslu í þessum bransa en við unnum báðir í Macland. Ég var þar í 8-9 ár og Hafþór vann þar í 10-11 ár og út frá því höfum við báðir öðlast bæði þekkingu og tengingar,“ segir Gunnar.
Hann segir að þeir hafi upprunalega einblínt mikið á Apple-vörur en ákváðu svo að bæta inn fleiri vörumerkjum þar sem þeir sáu mikil tækifæri í að bjóða upp á fjölbreytt raftæki.
Lune hefur selt mikið til einstaklinga en Gunnar segir að fyrirtækið sé líka að herja á fyrirtækin þar sem mörg þeirra hafi leitað til Lune af fyrra bragði. Hann segist einnig vilja bjóða lægra vöruverð allan ársins hring frekar en að vera háðir endalausum tilboðum.
„Við erum fyrst og fremst að reyna að hrista upp á markaðnum en á þeim stutta tíma sem Lune hefur verið starfrækt hefur velta fyrirtækisins hlaupið á tugi milljóna, sem við erum mjög ánægðir með þar sem starfsemin hefur reitt sig að mestu leyti á ummælum ánægðra viðskiptavina.“