Þrettán þingmenn ríkisstjórnarflokkanna Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins, hafa lagt inn beiðni til atvinnuvegaráðherra um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins og tengdra félaga í þeim fyrirtækjum í íslensku atvinnulífi sem ekki hafa útgerð fiskiskipa með höndum.
Dagur B. Eggertsson er fyrsti flutningsmaður málsins.
Óskað er eftir að í skýrslunni komi m.a. fram samantekt á fjárfestingum stærstu útgerðarfélaganna og tengdra eignarhaldsfélaga í félögum sem hafa ekki útgerð fiskiskipa með höndum á síðustu 10 árum og bókfært virði eignarhluta þeirra í árslok 2023.
Þá er óskað eftir að fram komi fjárfestingar eigenda 20 stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins á grundvelli aflamarks í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum með úthlutuðu aflamarki (krosseignatengsl), þar sem lögð verði til grundvallar skilgreining samkeppnislaga á tengdum aðilum.
Í greinargerð skýrslubeiðninnar segir að um sé að ræða sambærilega skýrslubeiðni og Hanna Katrín Friðriksson, núverandi atvinnuvegaráðherra, og fleiri settu fram í árslok 2023.
Óttast „verulega uppsöfnun eigna“
Flutningsmenn skýrslubeiðninnar segja að með þessum upplýsingum sé hægt að varpa ljósi á raunveruleg áhrif aðila sem hafa einkaleyfi til nýtingar fiskveiðiauðlindarinnar á íslenskt atvinnulíf og samfélag. Sterk fjárhagsstaða útgerðarfélaga byggist að umtalsverðu leyti á umræddu einkaleyfi.
„Yrði skýrsla þessi mikilvægt framlag til umræðunnar um dreifða eignaraðild útgerðarfélaga og skráningu þeirra á markað ásamt því að upplýsa umræðu um mikilvægi þess að þjóðin fái eðlilegan arð af auðlindum sínum.“
Þingmennirnir segja skýrar vísbendingar um að fjárfestingar tengdar fyrirtækjum í sjávarútvegi út fyrir greinina hafi aukist mjög í takt við aukinn hagnað af nýtingu auðlindarinnar.
„Það er jákvætt að því leyti að það dreifir áhættu félaganna sjálfra en getur hæglega leitt til verulegrar uppsöfnunar eigna og áhrifa á fárra hendur og dregið úr virkri samkeppni á mörkuðum. Vegna smæðar innanlandsmarkaða er íslenskt atvinnulíf sérstaklega viðkvæmt fyrir fákeppni.“
Segja ekki nema á færi sérfróðra að greina gögnin
Þingmennirnir segja að þótt hinar umbeðnu upplýsingar séu opnar almenningi sé það vart á færi nema sérfróðra aðila að vinna þær upplýsingar sem um er beðið og skapa þá yfirsýn sem eftir er leitað.
„Við það bætist að með mikilli fjölgun eignarhaldsfélaga, eignarhaldskeðjum og krosseignarhaldi hefur dregið mjög úr gagnsæi í atvinnurekstri sem gerir almenningi ókleift að fylgjast með mikilvægum þáttum í atvinnulífinu. Á það einnig við um sjávarútveg og starfsemi sem honum tengist og er tilgangur skýrslubeiðninnar m.a. að veita Alþingi og almenningi mikilvægar upplýsingar um hvernig hagnaði og arði af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar hefur verið varið.“
Í greinargerðinni segir að bókfært eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja hafi verið komið upp í 449 milljarða króna í lok árs 2023 samkvæmt gagnagrunni sem Deloitte tekur saman um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja landsins fyrir hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Eigið fé hafði þá aukist um 152 milljarða á tveimur árum.
Á árunum 2021, 2022 og 2023 hafi hagnaður af veiðum og vinnslu samtals numið 190 milljörðum króna.
Skýrslubeiðnin er frá Degi B. Eggertssyni, Örnu Láru Jónsdóttur, Önnu Maríu Jónsdóttur, Eydísi Ásbjörnsdóttur, Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni, Sverri Bergmanni Magnússyni, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Sigurjóni Þórðarsyni, Sigmari Guðmundssyni, Jóni Gnarr, Grími Grímssyni, Ingvari Þóroddssyni og Guðbrandi Einarssyni.