„Á Vopnafirði erum við stödd á köldu svæði og við höfum horft til þess með hvaða hætti við getum nýtt afgangsvarmann sem verður til í framleiðslu fiskmjöls til húshitunar á Vopnafirði og þannig fríað dýra raforku sem í dag fer til húshitunar í samfélaginu og nýtt hana í verksmiðjuna hjá okkur í stað þess að brenna olíu,“ segir Sveinn Margeirsson, framkvæmdastjóri nýsköpunar- og loftslagsmála Brims.
Brim er nú komið langt með þessa hugmynd en Sveinn bætir við að það þurfi að leggjast í nokkra innviðauppbyggingu svo hugmyndin verði að veruleika.
„Með þessu hringrásarferli getum við lækkað húshitunarkostnað fyrir bæinn og nýtt raforkuna betur. Við höfum verið í góðu samtali við sveitarfélagið um þetta verkefni. Þetta er þó auðvitað flókið verkefni og innviðirnir eru ekki fyrir hendi. Það má líkja þessu við þegar hitaveituvæðingin byrjaði og það þurfti að fara í meiriháttar framkvæmdir, það sama á við um þetta verkefni.“
Samkeppnisforskot íslenskra sjávarafurða
Sveinn segir mikil tækifæri felast í framtíðinni í lágu kolefnispori sjávarafurða fyrirtækisins. Það eigi einnig við um flestar íslenskar sjávarafurðir svo lengi sem auðlindum sé stýrt með skynsamlegum hætti og að fjárfest sé í tækni til framtíðar.
„Aðgengi að endurnýjanlegri raforku með lágu kolefnispori hefur hjálpað okkur enn frekar að skila endavörunni með lágu kolefnispori. Ef við berum saman spor sjávarafurða Brims við spor annarra matvæla þá erum við mun neðar en flest önnur matvæli. Í þessu felast mikil tækifæri í framtíðinni, hvort sem það er hinn meðvitaði innkaupastjóri eða neytandi sem kaupir frekar prótín með lágt kolefnispor. Það má segja að þetta gildi í raun um flest öll íslensk fyrirtæki svo lengi sem við stýrum auðlindunum með heildarhagsmuni Íslands að leiðarljósi og fjárfestum í tækni sem hjálpar okkur fram á veginn, að þá verðum við með ákveðið samkeppnisforskot.“
Sveinn segir vanta upp á að Ísland kynni sérstöðu sinna sjávarafurða betur út á við.
„Íslenskur sjávarútvegur stendur mjög framarlega í tækniþróun og skilar frá sér heilnæmri vöru með lágu kolefnispori í samanburði við önnur matvæli. Við erum með fiskveiðistjórnunarkerfi sem stendur vel á heimsvísu og erum að nýta stofnana á sjálfbæran hátt. Þá spyr maður sig hvort við séum að koma okkur nógu vel á framfæri. Þar er upplýsingagjöfin mikilvæg og fjölmiðlar sem koma þar sterkt inn, sérstaklega erlendis í þessu samhengi. Ég held að það séu miklir hagsmunir sem geta falist í því að virkja sameiginlegan kraft í markaðsmálum og framsetningu upplýsinga hvað þetta varðar.“