Um áramótin voru Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Kría, sprota- og nýsköpunarsjóðir í eigu ríkisins, er sameinaðir undir nafninu Nýsköpunarsjóðurinn Kría eftir undirbúningsferli sem hófst í árslok 2023.
Hagræðingarhópur forsætisráðherra hefur nú lagt til að Nýsköpunarsjóðurinn Kría verði lagður niður en með því er áætlað að hægt sé að spara 9,7 milljarða króna.
Hópurinn segir að Nýsköpunarsjóðnum Kríu sé ætlað að lagfæra markaðsbrest sem er ekki lengur til staðar. Þá sé uppsöfnuð fjárfestingargeta mikil.
„Komi aftur fram ákall frá nýsköpunarsamfélaginu um markaðsbrest mætti skoða að fjármagna það sérstaklega. Auk áætlaðrar hagræðingar má með sölu á eignum sjóðsins lækka vaxtagjöld ríkissjóðs,“ segir í skýrslu sjóðsins.
Frá því að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hóf starfsemi árið 1998 hefur hann komið að fjármögnun yfir 200 sprotafyrirtækja fyrir ríflega 25 milljarða á núverandi verðlagi. Sjóðurinn hefur að undanförnu lagt aukna áherslu á að styðja við sprotafyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref.
Kría var sjálfstæður sjóður í eigu íslenska ríkisins sem var stofnaður árið 2021. Sjóðurinn fjárfesti í fjórum vísisjóðum í samstarfi við aðra sjóðafjárfesta.