Eins og sagt var frá í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins fengu íslenskir stjórnmálaflokkar samtals úthlutað tæplega 10,6 milljörðum króna úr ríkissjóði, á verðlagi dagsins í dag, á tímabilinu 2010-2025. Sjálfstæðisflokkurinn hefur, þar til í síðustu alþingiskosningum, verið stærsti flokkur landsins á tímabilinu. Flokkurinn hefur fengið hæsta úthlutun úr ríkissjóði á tímabilinu, eða alls rétt rúmlega 2,6 milljarða króna á verðlagi dagsins í dag. Samfylkingin, sem er í dag stærsti flokkurinn á þingi, hefur fengið næstmest í sinn hlut, eða hátt í 1,7 milljarða króna. Skammt á eftir Samfylkingunni koma Vinstri Græn og Framsókn svo með um 1,6 milljarða.

Þrátt fyrir að hafa fengið langhæst fjárframlög úr ríkissjóði á tímabilinu 2010-2025 hafa það helst verið þingmenn úr röðum Sjálfstæðisflokksins sem hafa kallað eftir því að hætt verði að ráðstafa skattfé til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði. Flokkunum verði þess í stað gert að afla sér tekna upp á eigin spýtur, líkt og tíðkaðist til ársins 2010.

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður flokksins, hefur til að mynda talað fyrir algjöru afnámi opinberra styrkja en benti um leið á að í dag sé stjórnmálaflokkum settar þröngar skorður við að fjármagna sig upp á eigin spýtur.

Lögum samkvæmt mega flokkarnir aðeins taka við framlögum upp á 550 þúsund krónur frá lögráða einstaklingum á ári hverju. Stjórnmálafélögum innan samstæðu stjórnmálaflokks er þó heimilt að taka á móti framlögum umfram þetta frá einstaklingum, eða sem nemur að hámarki 100 þúsund krónum. Sömu reglur gilda um framlög lögaðila til stjórnmálaflokka.

Þá hefur Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, nokkrum sinnum lagt fram frumvarp á Alþingi sem miðar að því að draga úr opinberum styrkjum til stjórnmálaflokka og auðvelda þeim sjálfstæða tekjuöflun. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að þröskuldurinn til að hljóta framlag úr ríkissjóði skuli hækkaður úr 2,5% í 4% atkvæðamagn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.