Hagræðingarhópurinn, sem Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra skipaði til að fara yfir hagræðingartillögur almennings, hefur skilað 60 tillögum til ríkisstjórnarinnar. Uppsafnaður sparnaður þeirra tillagna sem búið er að áætla fyrir nemur um 71 milljarði króna, að því er segir í skýrslu hópsins.

Hópurinn leggur til að starfshópur verði stofnaður sem fái það hlutverk að forgangsraða, undirbúa og samhæfa sameiningar ríkisstofnana út kjörtímabilið en áætlað er að hagræði af sameiningum og samrekstri geti numið 13-19 milljörðum króna.

Bent er á að stofnanir ríkisins séu nú 154 talsins og 68 stofnanir eru með færri en 50 stöðugildi. „Óhagræði og skortur á slagkrafti fylgir svo litlum stofnunum,“ segir í skýrslunni.

Meðal annars er lagt til að Samkeppniseftirlitið, Fjarskiptastofa, Neytendastofa og Fjölmiðlanefnd verði sameinuð. Þá er lagt til að sameina Tryggingastofnun og Sjúkratryggingar.

Mynd tekin úr skýrslu hópsins.
Mynd tekin úr skýrslu hópsins.

30 milljarða sparnaður með hagræðingum í innkaupum

Nefndin segir mikil tækifæri til hagræðingar í opinberum innkaupum sem nýsameinuð Fjársýsla þarf að leiða. Áætluð hagræðing vegna opinberra innkaupa á árunum 2026-2030 nemur 30 milljörðum króna en það miðar við 2% hagræðingu.

Nefndin áréttar þó að erfitt sé að áætla sparnað í þessum lið. Bent er á að þegar opinber innkaup nema tæpum 300 milljörðum króna í A-hluta, spari 1% hagræðing 3 milljarða króna á ári.

„Við teljum að hægt sé að ná 2% hagræðingu með markvissum aðgerðum,“ segir hópurinn.

„Rafrænar tengingar milli reikninga og samninga skortir. Stofnanir þurfa að gera innkaupaáætlanir í ríkari mæli. Margir samningar eru útrunnir. Aðrir eru of víðir, en það er þannig í dag að rammasamningar eru opnir sveitarfélögum og ýmsum samtökum ótengdum ríkinu og því ekki hægt að gefa eða framfylgja magnloforðum.“

Þá þurfi að skoða hlutverk Fjársýslunnar með tilliti til samkeppni við einkaaðila sem veita innkaupaþjónustu.

Vilja leggja niður Nýsköpunarsjóðinn Kríu

Hópurinn vill leggja niður Nýsköpunarsjóðinn Kríu og telur að slík ráðstöfun geti skilað 9,7 milljarða hagræði. Hópurinn telur að sjóðnum sé ætlað að lagfæra markaðsbrest sem sé ekki lengur til staðar.

Hagræðingarhópurinn leggur einnig til að stofnað verði fagráð um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Fram kemur að ef 1% af heildarútgjöldum heilbrigðiskerfisins sparist þá gæti slíka forgangsröðun sparað 4 milljarða árlega. Hópurinn áætlar hagræði upp á 8 milljarða vegna þessarar tillögu á kjörtímabilinu.

„Slíkt fagráð muni ígrunda ýmis mál sem tengjast þeim flóknu viðfangsefnum sem heilbrigðiskerfið fæst við og aðstoða við að hætta að veita þjónustu og meðferðir sem litlu skila.“

Bætt lausafjárstýring er talin geta skilað 3,75 milljörðum á tímabilinu. Bent er á að ríkissjóður eigi töluvert mikið af inneignum í viðskiptabönkum á sama tíma og hann fjármagnar sig á lánum. Fjármálaráðuneytið geti náð fram „mikilli hagræðingu“ með breyttu verklagi í samvinnu við Fjársýslu ríkisins og Seðlabanka Íslands. Sérstaklega þurfi að skoða lausafé Menntasjóðs námsmanna.

Þá telur hópurinn að hægt verði að ná hagræðingu upp á 2,5 milljarða á kjörtímabilinu með því að stytta málsmeðferðartíma og flutning umsækjenda sem fá synjun á umsókn sinni, þannig að tími sem þeir þiggja þjónustu af hálfu Vinnumálastofnunar styttist um einn mánuð.

Einnig er lagt til að bæta húsnæðisnýtingu hins opinbera „verulega“. Hópurinn telur að hægt sé að hagræða um 3-6 þúsund fermetra. Þetta geti skilað hagræðingu upp á 1.170 milljónir króna.

Meðal annarra tillagna hópsins er að leggja niður ráðstöfunarfé ráðherra en með því megi spara 150 milljónir á kjörtímabilinu.

Þá er lagt til að styrkir til stjórnmálaflokka verði endurskoðaðir þannig að ákvæði um lágmarkskjörfylgi verði hækkuð og heildarfjárframlög lækkuð. Eins er lagt til að prentun þingskjala verði hætt.