Orkuveita Reykjavíkur (OR) gerir ráð fyrir að nýtt hlutafé í dótturfélögunum Carbfix og Ljósleiðaranum verði selt fyrir um 61,2 milljarðar króna á tímabilinu 2024-2028, samkvæmt nýrri fjárhagsspá sem birt var í dag.
Til samanburðar var áætlað í fjárhagsspá sem OR gaf út fyrir ári að nýtt hlutafé í dótturfélögunum tveimur yrði um 50 milljarðar á tímabilinu 2023-2027.
„Nýtt hlutafé í Ljósleiðarann er áætlað að komi til á árinu 2024 en nýtt hlutafé í Carbfix er dreift niður á tímabilið til móts við fjárfestingar og fjárþörf. Á sama tíma er gert ráð fyrir að greiða niður lán um 91,7 milljarða króna,“ segir í nýútgefinni fjárhagsspá OR.
Orkuveitan undirbýr nú sölu á nýju hlutafé í dótturfélögunum tveimur en hyggst þó vera meirihlutaeigandi þeirra beggja áfram.

Alls gerir Orkuveitan ráð fyrir að fjárfesta í Carbfix fyrir 68 milljarða á tímabilinu eða sem nemur 30% af heildarfjárfestingum samstæðunnar á umræddu fimm ára tímabili. Sala hlutafjár í Carbfix er sögð til þess fallin að hraða uppbyggingu félagsins og standa undir fjárfestingum.
Carbfix hefur þróað tækni sem felur í sér að leysa koldíoxíð (CO2) í vatn og dæla niður í basaltberggrunn þar sem náttúruleg ferli steinrenna það til frambúðar. Stærsta verkefni félagsins á næstu árum er uppbygging Coda Terminal, móttöku- og förgunarmiðstöðvar við Straumsvík.
Carbfix hlaut í fyrra 16 milljarða króna styrk frá Nýsköpunarsjóði ESB fyrir verkefnið, en áætlað var að sú upphæð væri um þriðjungur af kostnaði þess.
Gera ráð fyrir miklum tekjuvexti hjá Carbfix
Orkuveitan gerir ráð fyrir að tekjur samstæðunnar vaxi á spátímabilinu 2024-2028 um 31,8 milljarða króna eða 49,5%. Helsta skýringin eru forsendur um mikinn tekjuvöxt Carbfix og tengdra verkefna. Auk þess er gert ráð fyrir auknum tekjum í tengslum við uppbyggingu Jarðhitagarðs ON við Hellisheiðarvirkjun og endurnýjun orkusölusamninga ásamt aukinni sölu á upprunaábyrgðum.
Gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður samstæðunnar án afskrifta aukist á tímabilinu um 8,2 milljarða króna eða 29,1%, að stærstum hluta vegna aukinna umsvifa hjá Carbfix og Ljósleiðaranum auk uppbyggingar á Jarðhitagarði ON.

Spá verulegri hagnaðaraukningu næstu ár
Orkuveitan spáir því að hagnaður samstæðunnar aukist töluvert og verði um 23 milljarðar árið 2028. Til samanburðar hagnaðist OR um 8,4 milljarða króna í fyrra og gert er ráð fyrir að samstæðan hagnist um 6,1 milljarð í ár.
Því er spáð að ávöxtun eigin fjár hækki mikið undir lok spátímabilsins en á þeim tíma er gert ráð fyrir að hagnaður af rekstri Carbfix sé að aukast mikið á milli ára.

„Fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur endurspeglar þann metnað sem fyrirtækin í samstæðunni hafa fyrir lífsgæðum fólks og að vera bakhjarlar fyrir þróun öflugs, græns atvinnulífs. Með umfangsmiklum fjárfestingum í innviðum er stutt við jákvæðan vöxt samfélagsins með áframhaldandi forystu í orkuskiptum, meðal annars með áhugaverðum hugmyndum um aukna orkuvinnslu,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri OR.
„Í þessari spá er að finna tímamótaverkefni í þágu okkar og komandi kynslóða og í fjárhagsspánni sýnum við hvernig við ætlum að láta þau raungerast. Það eru vissulega ýmsir óvissuþættir í umhverfinu en ég hef trú á að traust fjárhagsstaða samstæðunnar, góð tök á rekstri fyrirtækjanna og skörp sameiginleg sýn muni skila okkur mikilvægum áföngum á næstu árum.“