Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefur skilað inn umsögn um áform ríkisstjórnarinnar um atvinnustefnu Íslands til ársins 2035. OR telur að kolefnisbinding líkt og dótturfélagið Carbfix sérhæfir sig í geti orðið að mikilvægri útflutningsgrein.
Undir lið þar sem spurt er um hvaða útflutningsgrein geti vaxið mest á næstu tíu árum og náð tugmilljarða útflutningi, segir Orkuveitan að frá sínum bæjardyrum „blasi við“ að binding kolefnis í jarðlögum frá iðnaði eða úr andrúmslofti geti orðið ný atvinnugrein hér á landi með veruleg tækifæri til útflutnings.
„Loftslagsváin ágerist og nauðsyn þess að draga úr losun frá núverandi iðnaði og draga úr losun fyrri ára sem nú situr í andrúmsloftinu eykst stöðugt. Kolefnishlutlausar atvinnugreinar eru ákjósanlegar en atvinnugrein með neikvætt kolefnisspor er hreint tækifæri,“ segir í umsögninni sem Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, er skrifaður fyrir.
Sævar Freyr segir að kolefnisbinding á Íslandi sé þegar í fremstu röð og hugmyndir um frekari útbreiðslu liggi fyrir. Ísland „af mörgum samverkandi ástæðum“ hefði ótvírætt samkeppnisforskot á þessu sviði að hans sögn.
Undanfarin þrjú ár hefur verið unnið að því að sækja nýtt hlutafé í Carbfix en þau áform hafa enn sem komið er ekki gengið eftir. Í desember 2024 samþykkti stjórn OR að hækka lánalínu Carbfix í 12 milljarða króna til ársloka 2026.
Vilja „grænan dregil“
Orkuveitan, sem er í 93,5% eigu Reykjavíkurborgar, segir að fyrsta verkefnið sem uppfylli mörg af markmiðum væntanlegrar atvinnustefnu gæti verið flýtimeðferð í stjórnsýslunni eða „grænn dregill“.
„Þannig má sjá fyrir sér að sjálfbærasta verðmætasköpunin lendi síður aftarlega í röð opinberra afgreiðsluverkefna eða stöðvist á einhverju stjórnsýslustigi. Þessi „hraðbraut“ ætti að liggja hvorttveggja um stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og að fyrirsjáanleiki ferðalags hvers verkefnis sé sem allra mestur.
Þarna getur þurft að koma til stuðningur og aðhald ríkisins við sveitarfélög við að gegna lögbundnum verkefnum þeirra á borð við skipulagsgerð og leyfisveitingar.“
Orkuveitan fagnar áherslu um fyrirsjáanleika til fjárfestinga og nefnir sérstaklega að fyrirsjáanleiki um regluverk og samskipti við hið opinbera, t.d. hvað varðar ýmis leyfismál, sé mikilvægur. Einnig sé fyrirsjáanleiki um fjárhagslegar álögur mikilvægur „en um þessar mundir eru á lofti óvenjulega fjölbreyttar hugmyndir ýmissa opinberra aðila um gjaldtöku af orkuvinnslu“.
Orkuveitan nefnir einnig að aukin vinnsla endurnýjanlegrar orku sé lykilatriði og þar séu áform stjórnvalda varðandi leyfisferla brýn.
„Þau þurfa að raungerast en einnig þarf að gæta að viðskiptaumhverfi orkuvinnslunnar. Eigi t.a.m. nýting vindorku að þroskast hér á landi þarf jöfnunarafl með löngum fyrirsjáanleika á markaðinn, vöru sem einungis einn aðili í landinu getur boðið.“
Kallist „fagurlega“ á við heildarstefnu OR
Sævar Freyr segir Orkuveituna sjá mikinn samhljóm með áformaskjals um atvinnustefnu Íslands til 2035 og heildarstefnu OR.
„Þær áherslur sem fram koma í áformaskjalinu um aukna verðmætasköpun í jafnvægi við samfélag, umhverfi og innviði kallast fagurlega á við Heildarstefnu Orkuveitunnar sem er útlistuð undir kjörorðinu Við erum aflvaki sjálfbærrar framtíðar.
Undir þessari stefnu starfar öll Orkuveitusamstæðan. Innan hennar eru, auk móðurfélagsins, margir máttarstólpar atvinnuþróunar og nýsköpunar í landinu, orkuvinnslu- og orkuskiptafyrirtækið Orka náttúrunnar, innviða- og þjónustufyrirtækin Veitur og Ljósleiðarinn og nýsköpunar- og þróunarfyrirtækið Carbfix.“