Framleiðslufyrirtækið Rotovia á rætur að rekja til ársins 1984 þegar Sæplast hóf rekstur á Dalvík. Félagið veltir í dag 21 milljarði á ári og rekur tíu verksmiðjur í sjö löndum.

Tekjustraumar Rotovia eru tvenns konar, annars vegar að hanna, þróa, framleiða og selja eigin vörur, en þaðan koma 45% teknanna. 55% hluti teknanna eru það sem kallast „custom molding“ eða sérhæfð framleiðsla, þar sem félagið framleiðir íhluti m.a. fyrir alþjóðlega bílaframleiðendur, vindmylluframleiðendur og framleiðendur landbúnaðartækja.

Daði Valdimarsson, forstjóri félagsins, segir félagið leggja áherslu á að auki vægi eigin vara í tekjumódelinu. Þá sé einnig stefnt að því að stækka hlutfall leigutekna í tekjumódelinu, í takt við þróunina á markaðnum í átt að hringrásar- og deilihagkerfi.

„Við leggjum áherslu á að stækka okkar eigin vörur og erum farin að taka mjög ákveðin skref í að leigja vörur á markaðinn í stað þess að selja. Innan samstæðunnar er félagið iTUB sem leigir Sæplastker á markaðinn, en við höfum verið með það félag í rekstri frá árinu 2010. Síðustu áramót eignuðumst við það að fullu, en þar áður áttum við helmingshlut í félaginu. Við höfum verið að leigja inn í sjávarútveg í Evrópu en horfum til þess að leigja í aðra geira og leigja aðrar vörur eins og VARI-boxið. Það er ákveðin þróun á markaðnum núna að fyrirtæki vilja gjarnan geta leigt fjárfestingavöru. Við eigum von á því að þessi þróun haldi áfram og erum með stórar áætlanir um að stækka hlutfall leigutekna í tekjumódelinu.“

Rotovia leggur mikið upp úr nýsköpun, bæði í framleiðsluferlinu og í vöruþróun.

„Við leggjum mikla áherslu á að leita leiða við að minnka vægi jarðefnaeldsneytis í orkunni sem við notum. Við erum með mjög stóra ofna sem þarf að hita upp, og það þarf oft að hita þá upp með gasi og olíu. Við höfum unnið að verkefnum sem snúa að því að nota grænt rafmagn til að hita, og þar erum við leiðandi í heiminum. Við erum líka að fjárfesta í framleiðni í verksmiðjunum okkar og erum með róbótasellur sem sjá um lokafrágang á vörum. Þar að auki er frauðplastsframleiðslan hjá dótturfélagi okkar, Tempru, mjög sjálfvirknivædd. Mesta nýsköpunin hjá okkur felst hins vegar í vöruþróuninni og leggjum við áherslu á að þróa áfram okkar eigin vörur og leita leiða við að gera þær léttari svo að það sé hægt að gera meira með minna af hráefni. Að lokum er ýmiss konar nýsköpun í sérhæfðu framleiðslunni okkar, og þar höfum við verið að finna upp aðferðir til að framleiða hluti sem við fáum svo einkaleyfi á.“

Við­tal við Daða birtist í Við­skipta­blaðinu sem kom út í vikunni. Á­skrif­endur geta lesið við­talið hér.