Átta þingmenn úr röðum Framsóknar og Flokks fólksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu. Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.

Átta þingmenn úr röðum Framsóknar og Flokks fólksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu. Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.

Tillagan felur í sér að fela ríkisstjórninni að taka til frumathugunar stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu og að litið verði til starfsemi Equinor í Noregi (áður Statoil) í þeim efnum.

„Með stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu sem yrði í meirihlutaeigu ríkisins er tryggt að stærstur hluti ábata af framleiðslunni renni til þjóðarinnar,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Þar segir að ef horft sé til Noregs og stofnunar ríkisolíufélagsins Statoil árið 1972 „ætti öllum að vera ljós ábati norska ríkisins af þeirri ákvörðun“ og vísa þingmennirnir þar í norska olíusjóðinn.

„Íslendingar eru í kjörstöðu til að nýta auðlindir sínar til framleiðslu rafeldsneytis, bæði fyrir innanlandsframleiðslu og mögulega til útflutnings, og styrkja þannig tekjustofna ríkissjóðs. Má velta því upp hvort tekjur af slíku fyrirtæki ættu að renna í samfélagssjóð líkt og Norðmenn hafa stofnað í tengslum við olíuvinnslu sína.“

Til að stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu geti orðið að veruleika „þá skiptir stuðningur og aðgerðir opinberra aðila og nýsköpunarsjóða afar miklu máli svo að möguleiki sé að skapa það umhverfi sem best verður á kosið og styðja við þróun tækni og lausna“, segja þingmennirnir.

Framlag í loftslagsbaráttunni og styrkir orkusjálfstæði landsins

Í greinargerðinni segir að leita þurfi fleiri grænna orkugjafa til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Framleiðsla rafeldsneytis, sem gæti verið vetni, ammoníak, metanól eða metan, sé „grænt tækifæri sem bíður þess að verða nýtt“.

„Talið er að framleiðsla rafeldsneytis á Íslandi gæti orðið ábatasöm og mikilvægt framlag í baráttunni gegn hlýnun loftslags. Aðgengi að rafeldsneyti þarf að vera til staðar og til að framleiðslan geti orðið samkeppnishæf til framtíðar þarf hún að vera á hagstæðu verði.“

Þá segja þingmennirnir mikilvægi þess að Ísland geti orðið sjálfbært er kemur að öflun á rafeldsneyti sé „ótvírætt eins og núverandi ástand heimsmála sýnir svo rækilega“.

„Sjálfbærni í orkuöflun er þjóðaröryggismál. Þjóðhagslegir hagsmunir eru fólgnir í því að framleiða innlenda orkugjafa til notkunar í orkuskiptum Íslendinga. Framtíðartækifæri eru mikil þegar kemur að framleiðslu á rafeldsneyti og hún styður við markmið um orkusjálfstæði Íslands.“

Flutningsmenn tillögunnar eru Stefán Vagn Stefánsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Eyjólfur Ármannsson og Tómas A. Tómasson.