Ryanair segist vilja takmarka áfenga drykki niður í tvo á hvern farþega á flugvöllum og hefur skorað á evrópsk yfirvöld að setja inn nýjar reglur til að sporna gegn ölvun farþega.
Flugfélagið hefur á sama tíma gefið út upplýsingar um lögsókn gegn farþega sem það segir að hafi verið ofurölvi í flugi frá Dublin til Lanzarote og hafi kostað Ryanair um 15 þúsund evrur, eða um 2,1 milljón króna.
Á vef Guardian segir að flugfélög áskilji sér þann rétt til að neita farþegum aðgang um borð ef áhöfn telur þá vera of drukkna. Ryanair vill hins vegar að flugvellir krefji farþega um brottfararspjöld þegar þeir kaupa áfenga á flugvallarbörum.
„Við skiljum ekki hvers vegna flugvellir takmarka ekki áfenga drykki niður í tvo á hvern farþega. Það myndi leiða til öruggari og betri hegðunar farþega um borð í flugvélum og öruggari ferðaupplifunar fyrir farþega og áhafnir um alla Evrópu,“ segir í tilkynningu frá Ryanair.
Flestir flugvellir í Evrópu selja áfengi en Ryanair bendir á að flugvellir í Bretlandi bjóði upp á mikið úrval kráa sem líkjast þeim sem sjást á bargötum landsins. Ryanair er með rúmlega 3.600 áætlunarflug á dag í 37 Evrópulöndum.
Starfsmenn félagsins segja að vandamálið sé ekki svo mikið þegar kemur að sölu áfengra drykkja um borð í flugvélum Ryanair, heldur hjá þeim farþegum sem drekka óspart á flugvellinum og eru síðan með læti í miðju flugi.