Þing­flokkur Framsóknar­flokksins hefur lagt fram þingsá­lyktunar­tillögu sem miðar að því að tryggja Ís­lendingum óverð­tryggð fast­eigna­lán á föstum vöxtum til langs tíma.

Til­lagan markar þátta­skil í húsnæðislána­málum og sækir fyrir­myndir til nágranna­landa, þar sem slík lán eru al­mennt í boði.

Sam­bæri­legar áherslur komu fram í máli Bene­dikts Gísla­sonar, banka­stjóra Arion banka, á haust­fundi Sam­taka fjár­mála­fyrir­tækja (SFF).

Í til­lögu Framsóknar­manna er fjár­mála- og efna­hags­ráðherra falið að vinna að að­gerðaáætlun til að tryggja að óverð­tryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma standi fast­eigna­kaup­endum til boða. Að­gerðaáætlunin á að liggja fyrir í haust 2025.

Flutnings­menn til­lögunnar leggja áherslu á að þetta fyrir­komu­lag þekkist í flestum nágranna­löndum, en ís­lenskir bankar hafa átt erfitt með að bjóða slík lán vegna fjár­mögnunar­vanda­mála.

Sam­kvæmt greinar­gerð með til­lögunni gætu stjórn­völd stutt við inn­leiðingu slíkra lána með þróaðri fjár­mála­markaði, breytingum á reglu­verki og vaxta­skipta­samningum sem auðvelda fjár­mála­stofnunum að bjóða fasta langtíma­vexti.

Ís­lenska ríkið og líf­eyris­sjóðir eru sagðir í sterkri stöðu til að veita slíka fjár­mögnun, en breytingin myndi skapa aukinn fyrir­sjáan­leika fyrir heimilin í landinu og draga úr vægi verð­tryggingarinnar.

Á fundi SFF í haust kynnti Bene­dikt Gísla­son til­lögur sínar um lækkun vaxta á íbúðalánum.

Hann talaði fyrir því að taka upp nýjar að­ferðir við fjár­mögnun húsnæðislána að norrænni fyrir­mynd.

Ein helsta hug­myndin var að auðvelda út­gáfu skulda­bréfa í evrum til langs tíma, í sam­vinnu við ís­lenska líf­eyris­sjóði. Með slíkum gjald­eyris­skipta­samningum mætti ná lægri fjár­magns­kostnaði og bjóða hagstæðari lán til al­mennings.

Bene­dikt gagn­rýndi einnig hömlur á upp­greiðslu­gjöld lána, sem hafa gert það erfiðara að bjóða upp á langtímalán með föstum vöxtum.

Þá benti hann á að „Ís­landsálagið“ (aukið álag á er­lenda fjár­mögnun ís­lenskra banka) væri meðal annars til­komið vegna neikvæðrar um­ræðu um fjár­mála­kerfið.

Það þyrfti að endur­skoða hvernig rætt væri um bankana opin­ber­lega og byggja um­ræðuna frekar á stað­reyndum.

Bene­dikt taldi jafn­framt að breytingar á reglum um verð­tryggingu í trygginga­fræði­legu upp­gjöri líf­eyris­sjóða gætu verið stærsta skrefið til að skapa markað fyrir óverð­tryggð lán á föstum vöxtum.

Þetta myndi leiða til aukinnar eftir­spurnar eftir langtíma nafn­vaxta­skulda­bréfum og gera fast­eigna­lán með föstum vöxtum raun­hæfari kost fyrir bankana.

Ef til­laga Framsóknar verður samþykkt þyrfti Daði Már Kristó­fers­son fjár­málaráðherra leggja fram að­gerðaáætlun í ár.