Þingflokkur Framsóknarflokksins hefur lagt fram þingsályktunartillögu sem miðar að því að tryggja Íslendingum óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma.
Tillagan markar þáttaskil í húsnæðislánamálum og sækir fyrirmyndir til nágrannalanda, þar sem slík lán eru almennt í boði.
Sambærilegar áherslur komu fram í máli Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion banka, á haustfundi Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF).
Í tillögu Framsóknarmanna er fjármála- og efnahagsráðherra falið að vinna að aðgerðaáætlun til að tryggja að óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma standi fasteignakaupendum til boða. Aðgerðaáætlunin á að liggja fyrir í haust 2025.
Flutningsmenn tillögunnar leggja áherslu á að þetta fyrirkomulag þekkist í flestum nágrannalöndum, en íslenskir bankar hafa átt erfitt með að bjóða slík lán vegna fjármögnunarvandamála.
Samkvæmt greinargerð með tillögunni gætu stjórnvöld stutt við innleiðingu slíkra lána með þróaðri fjármálamarkaði, breytingum á regluverki og vaxtaskiptasamningum sem auðvelda fjármálastofnunum að bjóða fasta langtímavexti.
Íslenska ríkið og lífeyrissjóðir eru sagðir í sterkri stöðu til að veita slíka fjármögnun, en breytingin myndi skapa aukinn fyrirsjáanleika fyrir heimilin í landinu og draga úr vægi verðtryggingarinnar.
Á fundi SFF í haust kynnti Benedikt Gíslason tillögur sínar um lækkun vaxta á íbúðalánum.
Hann talaði fyrir því að taka upp nýjar aðferðir við fjármögnun húsnæðislána að norrænni fyrirmynd.
Ein helsta hugmyndin var að auðvelda útgáfu skuldabréfa í evrum til langs tíma, í samvinnu við íslenska lífeyrissjóði. Með slíkum gjaldeyrisskiptasamningum mætti ná lægri fjármagnskostnaði og bjóða hagstæðari lán til almennings.
Benedikt gagnrýndi einnig hömlur á uppgreiðslugjöld lána, sem hafa gert það erfiðara að bjóða upp á langtímalán með föstum vöxtum.
Þá benti hann á að „Íslandsálagið“ (aukið álag á erlenda fjármögnun íslenskra banka) væri meðal annars tilkomið vegna neikvæðrar umræðu um fjármálakerfið.
Það þyrfti að endurskoða hvernig rætt væri um bankana opinberlega og byggja umræðuna frekar á staðreyndum.
Benedikt taldi jafnframt að breytingar á reglum um verðtryggingu í tryggingafræðilegu uppgjöri lífeyrissjóða gætu verið stærsta skrefið til að skapa markað fyrir óverðtryggð lán á föstum vöxtum.
Þetta myndi leiða til aukinnar eftirspurnar eftir langtíma nafnvaxtaskuldabréfum og gera fasteignalán með föstum vöxtum raunhæfari kost fyrir bankana.
Ef tillaga Framsóknar verður samþykkt þyrfti Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra leggja fram aðgerðaáætlun í ár.