Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri og annar stofnenda Snerpa Power, segir félagið bjóða stórnotendum á íslenskum raforkumarkaði hugbúnaðarlausn sem muni auka hagræði og samkeppnishæfni í raforkukerfinu. Hugmyndin að baki Snerpa Power er að virkja raforkunotendur til svokallaðrar reglunar í kerfinu, þannig að auka megi hagkvæmni og samkeppnishæfni raforkukerfisins, en auk þess búa til nýja tekjustrauma fyrir stórnotendur með því að selja hluta af sinni raforkunotkun aftur upp á net.

„Við erum að þróa og bjóða hugbúnað sem gerir stórnotendum á raforkumarkaði kleift að vera virkir á markaði sem sér um að regla raforkukerfið og bregðast við frávikum í rauntíma,“ segir Íris.

Stuðla að jafnvægi með reglun

Íris segir rekstur raforkukerfisins byggja á því að fullkomið jafnvægi sé ávallt milli framleiðslu og notkunar á rafmagni og í ljósi þess þurfi að framleiða rafmagnið á nákvæmlega sama tíma og það er notað.

„Til að ná þessu jafnvægi allar stundir ársins eru raforkukerfi um allan heim með umframgetu í uppsettu afli virkjana til að geta brugðist við frávikum í rauntíma. Þar sem framleiðslugetan er ekki fullnýtt er því í raun búið að fjárfesta í meira afli en er nýtt.“

Íris nefnir til samanburðar að þegar ná eigi fram hagræði í rekstri fyrirtækja sé gjarnan litið á vörulagerinn og hvort hægt sé að minnka hann, enda felist töluverður kostnaður í lagerhaldi.

„Þetta er að vissu leyti sambærilegt. Til að geta staðið undir því afhendingaröryggi sem krafa er gerð um í raforkukerfinu, er settur upp vörulager. Sá lager hefur hingað til legið á framleiðsluhlið raforkukerfanna, sem hafa þá þurft að vera með lager í formi umframafls og að hluta umframorku til að geta brugðist við frávikum. Við hjá Snerpa Power viljum virkja notendahliðina til að bjóða reglun inn á markaðinn og stuðla þannig að jafnvægi í rauntíma með minni fjárfestingu á bakvið. Það má segja að lausnin samræmist þannig vel aðferðafræði straumlínustjórnunar.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Viðskiptaþing - Er framtíðin orkulaus eða orkulausnir. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.