Cooks-eyjarnar í Suður-Kyrrahafi samanstanda af 15 eyjum og eru samtals um 240 ferkílómetrar að stærð. Eyríkið er ekki stórt en íbúar þjóðarinnar eru ekki nema 15 þúsund talsins.
Forsætisráðherra Cooks-eyjanna, Mark Brown, hefur engu að síður sýnt mikinn metnað undanfarið þegar kemur að alþjóðasamskiptum og hefur gert eyríkið áberandi í samskiptum við Kína.
Hann hefur undanfarin ár staðið í því að undirrita samkomulög við Kína sem tengjast innviðauppbyggingu, skipasmíði, ferðaþjónustu, landbúnaði, tækni, menntun og hafsbotnaauðlindum innan lögsögu ríkisins.
Samningarnir hafa ýmist verið gerðir án samráðs við almenning á eyjunum eða við Nýja Sjáland en Cooks-eyjarnar eru samstarfsríki Nýja-Sjálands.
Forsætisráðherrann segir hins vegar að samningarnir séu byggðir á langtímahagsmunum Cooks-eyjanna þar sem eyjarnar eru afskekktar, ríkar auðlindum og afar viðkvæmar fyrir loftslagsbreytingum.
Ákvarðanir hans hafa þó fallið í grýttan jarðveg hjá mörgum íbúum sem hafa mótmælt samningunum á Rarotonga, stærstu eyju ríkisins, og hafa einnig leitt til vantrauststillögu á þinginu.
Ástralska ríkisstjórnin hefur þar á meðal lýst yfir áhyggjum af þróuninni en Brown hefur ítrekað reynt að fullvissa bæði Ástralíu og Nýja-Sjáland um að hann sé ekki að skipta þeim út fyrir Kína.
Náskyld pólitísk og menningarleg tengsl
Cooks-eyjarnar hafa viðhaldið nánu sambandi við Nýja-Sjáland í áratugi en hátt í 100 þúsund manns sem fæddir eru í eyríkinu búa á Nýja-Sjálandi og Ástralíu. Maori-þjóð Cooks-eyjanna er einnig náskyld Maori-fólkinu sem býr á Nýja-Sjálandi.
„Við verðum að standa í samstarfi við lönd sem hafa sömu lýðræðisgildi og við.“
Eyjarnar fengu sjálfstjórn frá Nýja-Sjálandi árið 1965 en íbúar eyjanna viðhalda nýsjálenskum ríkisborgararétti og sjá Nýsjálendingar meðal annars um varnarmál fyrir eyríkið.
Samningarnir við Kína eru ekki einsdæmi hjá forsætisráðherranum um að hann vilji fjarlægjast Nýsjálendingum. Hann þurfti til að mynda nýlega að hætta við áform sín um að taka upp Cooks-eyja vegabréf eftir mótmæli íbúa.
„Samband okkar við Nýja-Sjáland tengir okkur með pólitískum og menningarlegum hætti. Fólkið okkar sigldi yfir hafið til Aotearoa (Maori-orðið fyrir Nýja-Sjáland) og við megum ekki gleyma því. Við verðum að standa í samstarfi við lönd sem hafa sömu lýðræðisgildi og við. Við viljum ekki að landi okkar verði selt hæstbjóðanda,“ segir Jackie Tuara, íbúi Cooks-eyja, á nýlegum mótmælendafundi.