Dóms er að vænta á næstu vikum í máli Lyfjablóms ehf. gegn Þórði Má Jóhannessyni, fyrrverandi forstjóra Straums-Burðaráss og fyrrverandi forstjóra Gnúps, og Sólveigu Pétursdóttur. Í málinu krefst félagið þess að fá greiddar skaðabætur úr hendi þeirra. Krafan hljóðar upp á 2,3 milljarða króna.
Forsaga málsins teygir sig aftur til áranna fyrir hrun. Lyfjablóm hét áður Björn Hallgrímsson ehf. Félagið var í jafnri eigu Kristins Björnssonar heitins, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, og þriggja systra hans en Kristinn var framkvæmdastjóri þess. Árið 2006 kom félagið, í gegnum dótturfélögin Eignarhaldsfélagið SK ehf. og Eignarhaldsfélagið SKE ehf. og dótturdótturfélögin Eignarhaldsfélagið SK II ehf. og Eignarhaldsfélagið SKE II ehf., að stofnun Gnúps fjárfestingafélags ehf. Ýmsir atburðir á stuttri ævi Gnúps eru uppspretta málaferlanna.
Systkinahópurinn átti rúmlega 46% hlut í Gnúpi og bræðurnir Magnús og Birkir Kristinssynir áttu annað eins. Fyrrverandi forstjóri Gnúps, áðurnefndur Þórður Már, átti svo rúmlega sjö prósenta hlut í Gnúpi. Tilurð hlutafjáreignar hans í Gnúpi er ástæðan fyrir hluta skaðabótakröfunnar.
Þúfubjarg og Gnúpur
Gnúpur hét áður Þúfubjarg ehf. og var stofnað sumarið 2006. Þá var það nær öllu eignalaust og í eigu Þórðar Más. Í október sama ár keyptu félög, sem Magnús og Kristinn voru í forsvari fyrir, Þúfubjarg og greiddu fyrir það 800 milljónir hvort. Fjármunirnir virðast hafa verið fengnir að láni frá Glitni.
Eftir kaupin var hlutafé þess aukið og tugmilljarða eignir, frá félögum tengdum Magnúsi og Kristni, lagðar í það. Þar á meðal var myndarlegt eignasafn bréfa í FL Group og Kaupþingi. Áðurnefndur Þórður Már lagði félaginu einnig til hlutafé eða alls 2 milljarða króna. Byggir Lyfjablóm ehf. á því við þann gjörning hafi réttum reglum ekki verið fylgt. Við viðskiptin hafi verið lögð fram yfirlýsing um að Þórður Már hefði greitt fyrir hlutina með reiðufé.
Reyndin hafi hins vegar verið sú að að fjármunirnir, sem Þórður lagði í félagið, hafi verið millifærðir daginn eftir, aftur til félaga sem Kristinn og Magnús stýrðu. Þeir hafi síðan nýtt féð til að gera upp lánin við Glitni. Telur Lyfjablóm að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða til að láta líta út fyrir að Þórður hefði lagt fé í félagið og þar með réttlæting fyrir eignarhlut hans í því. Í raun hafi Gnúpur tekið lánin yfir án þess að fá endurgjald fyrir. Krefst félagið sökum þess að fá greiddar 800 milljónir króna í skaðabætur af þessum sökum.
Upplýsingagjöf við hlutafjáraukningu
Hinn hluti dómkröfunnar, 1,5 milljarður króna, er til kominn vegna atvika í kringum hlutafjáraukningu Gnúps í nóvember 2007 en Björn Hallgrímsson ehf. lagði þá upphæð í félagið á þeim tímapunkti. Í ágúst 2007 fór fram árshlutauppgjör Gnúps. Samkvæmt því námu eignir félagsins rúmlega 90,4 milljörðum króna, skuldir voru 46 milljarðar króna og eigið fé jákvætt um 44,4 milljarða. Fjórum mánuðum eftir uppgjörið fór félagið fram á að hlutafé yrði aukið um 4,5 milljarða að sögn til þess að mæta tímabundnum sveiflum á hlutabréfamarkaði. Eins og flestum er kunnugt um fór Gnúpur veg allrar veraldar um sex vikum síðar og á fyrstu vikum ársins 2008 tók Glitnir yfir félagið.
Lyfjablóm byggir á því að upplýsingar veittar í tengslum við árshlutauppgjörið og hlutafjáraukninguna hafi beinlínis verið vísvitandi rangar. Ekki hafi verið gerð grein fyrir tugmilljarða skuldbindingum Gnúps í framvirkum samningum en þær hafi numið rúmlega 50 milljörðum króna. Gnúpur hafi í raun verið gjaldþrota þegar á þessum tímapunkti. Telur Lyfjablóm gögn sýna fram á að fjármunirnir úr hlutafjáraukningunni hafi síðan verið nýttir til að styrkja stöðu FL Group þar sem félagið gat ekki fengið meira að láni frá Glitni. Er á því byggt að rangar upplýsingar hafi verið veittar til að fá hluthafa til að leggja aukið fé í félagið. Slíkt hefði ekki komið til greina hefðu réttar upplýsingar verið veittar í upphafi.
Einnig bendir Lyfjablóm á það að forstjórinn Þórður Már, einn hluthafa, tók ekki þátt í umræddri hlutafjáraukningu þrátt fyrir að hafa gleggstu myndina af stöðu þess. Þá hafi Þórður Már losað sig persónulega við skuldbindingar í ýmsum félögum samtímis því að Gnúpur jók við sig í sömu félögum. Eigi það meðal annars við um FL Group.