Meðal dagskrárliða fyrir komandi hluthafafund Festar þann 14. júlí er tillaga eins hluthafa um að nafni félagsins verði breytt í Sundrung. Þetta kemur fram í tilkynningu frá smásölusamstæðunni, en ekki fylgir sögunni hvert auðkenni félagsins í Kauphöllinni verður, verði tillagan samþykkt.
Aðeins þrjú mál eru á dagskrá fundarins: stjórnarkjör, umrædd tillaga og staðlaði liðurinn „önnur mál“. Við boðun fundarins sagðist sitjandi stjórn félagsins óska þess að hann mætti „verða til þess að sætta ólík sjónarmið“ svo unnt yrði að halda áfram þeirri vegferð sem fyrir höndum er við skipan nýs forstjóra.
Nokkrar væringar hafa verið hjá félaginu undanfarið eftir að Eggerti Þór Kristóferssyni fráfarandi forstjóra var óvænt sagt upp störfum í byrjun síðasta mánaðar eftir 7 farsæl ár í starfi, þótt starfslokin hafi í fyrstu verið tilkynnt sem uppsögn af hans hálfu. Líklegt má þykja að hin nýstarlega tillaga sé vísun í það mál, þótt ómögulegt sé að fullyrða nokkuð í þeim efnum.