Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals Útsýnar, segir að opinberir starfsmenn ættu að notast við hlutlausar ferðaskrifstofur þegar verið er að bóka flugferðir erlendis. Hún gagnrýnir núverandi fyrirkomulag og segir að það þurfi betur að gæta að jafnræði.
„Ríkið á bara að gera kröfu um að það eigi ekki að veita vildarpunkta til opinberra starfsmanna. Vildarpunktarnir eiga að renna til ríkisins þar sem keyptar ferðir fyrir opinbera starfsmenn eru í eign ríkisins,“ segir Þórunn í samtali við Viðskiptablaðið.
Hún segir flugfélögin vera með ákveðna kóða fyrir opinbera starfsmenn og að sú tækni sé alveg til staðar sem myndi koma í veg fyrir að þeir kóðar myndu ekki veita vildarpunkta.
„Besta leiðin er að þetta sé gert í gegnum hlutlaust fyrirtæki sem hefur enga hagsmuni að gæta. Það hefur bara það verkefni að gæta þess að jafnræðis sé gætt og að lægsta verðið sé fundið miðað við kröfur.“
Þórunn segir að hún sé stöðugt í sambandi við öll flugfélög sem fljúga til og frá Íslandi. Erlend flugfélög sem hún á í samskiptum við segist aldrei fá bókanir frá opinberum starfsmönnum, sem fljúgi frekar með Icelandair.
„Númer eitt, tvö og þrjú er að það þarf að gæta að jafnræði. Ef Play eða SAS eða eitthvert annað flugfélag er með ódýrara fargjald og tíminn er sá sami þá þarf að nýta það flug. Síðan ætti ekki að vera heimilt að taka út vildarpunkta ef ferðin er á kostnað ríkisins.“
Hún segist margsinnis hafa reynt að hafa samband við utanríkisráðuneytið vegna málsins og bendir á að starfsmenn slíkra stofnana hafi heldur ekki þann alþjóðlega aðgang sem ferðaskrifstofur hafa.
Þá segir hún að með því að notast við ferðaskrifstofu væri einnig hægt að sjá hversu miklar fjárhæðir fara í ferðalögin. „Mér fannst það mjög einkennilegt að ríkið hafi ekki nákvæmar upplýsingar um þetta en það er vegna þess að þeir leyfa öllum að gera það sem þeir vilja, þetta er bara stjórnlaust,“ segir Þórunn.
Á dögunum skilaði flugfélagið Play inn umsókn í Samráðsgátt með tvíþættri tillögu að aukinni ráðdeild í ríkisrekstri, sem Vísir greindi frá.
Sú fyrri snýr að því að ríkisstofnanir kaupi alltaf ódýrasta flugmiðann fyrir starfsmenn sem ferðast til og frá Íslandi vegna vinnu. Síðari liðurinn snýr að vildarpunktafríðindum opinberra starfsmanna, sem hafa áður komið til umræðu.