Staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar er ólíðandi að sögn Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Ein orsökin sé sú að aðhald í opinberum rekstri hafi ekki verið nægjanlegt. Hún segir að mikilvægasta verkefnið framundan séu kjaraviðræðurnar en samningar á opinberum vinnumarkaði losna í byrjun næsta árs. Hún vill semja til fimm ára.

„Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að ná kjarasamningum sem byggja undir hagsæld og tækifæri í samfélaginu," segir hún. „Við hjá Samtökum atvinnulífsins finnum til mikillar ábyrgðar og erum meðvituð um að í baráttunni við verðbólgu og hátt vaxtastig má enginn skorast undan ábyrgð. Kjarasamningar án innistæðu enda sem verðbólgufóður.

Viðræður hafa í raun verið í gangi frá því að lokið var við síðustu samninga. Við eigum bæði í óformlegum samtölum við forystu verkalýðshreyfingarinnar, en einnig eigum við í formlegum viðræðum á grundvelli bókana síðustu kjarasamninga, þar sem kveðið var á um tiltekin verkefni. Sú vinna snýr að ákveðnum þáttum kjarasamninga sem kalla á töluverða yfirlegu. Það var því talið mikilvægt að hefja þá vinnu tímanlega. Sú vinna hefur gengið vel og er enn í gangi."

Gerðir voru skammtímasamningar á almenna vinnumarkaðnum síðasta vetur. Vegna óvissu í efnahagsmálum var samið til rúmlega eins árs.  Sigríður Margrét vill ná lendingu um lengri samninga í komandi kjaraviðræðum.

„Langtímasamningar skapa mikilvægan fyrirsjáanleika, bæði fyrir fólk og fyrirtæki. Fyrirsjáanleiki stuðlar að stöðugleika sem er ein af grundvallarforsendum þess að það dragi úr verðbólguvæntingum. Við heyrum samhljóm á meðal viðsemjenda okkar um að samningar til lengri tíma séu skynsamlegasta leiðin. Sjálf hef ég talað fyrir fimm ára kjarasamningum."

Rætt er við Sigríði Margréti í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Blaðið er opið öllum og hægt er að skoða það hér.