Ákvörðun nýs meirihluta Reykjavíkurborgar um að veita ekki Alvotech leyfi til að byggja leikskóla sem myndi þjóna starfsfólki hefur vakið hörð viðbrögð. Minnihlutinn í borginni gagnrýndi ákvörðunina harðlega í gær og var málið tekið upp í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.
Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrrverandi ráðherra og nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, beindi sinni fyrirspurn til Ásthildar Lóu Þórsdóttur, nýs mennta- og barnamálaráðherra, og vakti athygli löngum biðlistum eftir leikskólaplássi. Sem dæmi hafi nærri 700 börn eldri en eins árs verið á biðlista í Reykjavík í júní 2024 en sama vandamál væri til staðar víðar á landinu. Fyrirtæki finni einnig fyrir þessari vöntun og vilji koma til móts við sitt fólk.
„Meiri hlutanum í borginni hugnast einfaldlega ekki lausnir einkaframtaksins og sú afstaða þeirra kemur í veg fyrir að byggður verði nýr leikskóli þar sem ætla má að leikskólakennarar gætu fengið betri laun. Það er ótækt að undirliggjandi vantraust í garð einkaframtaksins komi niður á börnum og komi í veg fyrir atvinnuþátttöku foreldra. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hún telji að þessi framkvæmd Reykjavíkurborgar standist stjórnsýslulög og lög um leikskóla. Og ef svo er, telur ráðherra tilefni til lagabreytinga til að gera fyrirtækjaleikskólum mögulegt að starfa í Reykjavík?“ spurði Guðrún.
Í svari sínu sagði Ásthildur Lóa að lausnir einkaframtaksins gætu verið mikilvægar en skoða þyrfti málið frá fleiri þáttum. Þá væri skortur á leikskólakennurum en hún virtist setja sig upp á móti því að fyrirtækin myndu greiða leikskólakennurum hærri laun.
„Er þetta ekki sama fólk og kvartar yfir því oft á tíðum ef laun kennara eru hækkuð? Og er það sanngjarnt að sumir og sum börn fái menntaða leikskólakennara af því að það er fyrirtæki sem er tilbúið að borga fyrir bara þessi börn? Mér finnst það í rauninni ekki. Þarna erum við náttúrlega líka komin að því sem kennarar hafa verið að biðja um sem er jöfnun launa á milli markaða. Svo má velta fyrir sér bara gagnvart barninu: ef barn er í skóla sem er rekinn af viðkomandi fyrirtæki og foreldri missir vinnuna, hættir eða hvernig það er, er þá barnið líka rekið af leikskólanum? Það eru alls konar álitamál í þessu,“ sagði Ásthildur Lóa.
Guðrún benti á það í andsvari sínu að ráðherrann hafi ekki svarað upprunalegri spurningu, um hvort tilefni væri til lagabreytinga. Þess í stað tali hún um að ekki sé hægt að nýta einkaframtakið
„Það kemur mér á óvart. Við erum hér með fyrirtæki sem er tilbúið til að byggja leikskóla, er tilbúið til að leysa bráðan vanda starfsmanna sinna. Og ég endurtek því þá spurningu hvort ráðherra muni beita sér fyrir slíkum lagabreytingum að fyrirtæki sem vilja stíga inn af ábyrgð, vilja leysa bráðavanda foreldra þannig að foreldrar í mikilvægum störfum geti sinnt þeim, geti gert það,“ spurði Guðrún.
Vildi þá ráðherrann meina að „ákveðins misskilnings“ gætti í spurningunni. Leikskólar væru fyrst og fremst fyrir börn en ekki foreldra. Fyrrverandi ríkisstjórn hafi ekki sinnt menntamálum sem skyldi. Guðrún kallaði þá úr sal spurningu um hvað ríkisstjórnin ætlaði sér að gera, og brást ráðherrann ókvæða við.
„Fyrrverandi ráðherrar bara kunna sig ekki. Vitið þið ekki hvernig þetta virkar hérna? Við þurfum að fjölga kennurum áður en við getum leyft svona breytingar. Það skiptir máli að horfa á skipulag leikskóla með heildstæðum hætti innan sveitarfélaganna. Hvert sveitarfélag ber ábyrgð á heildarskipulagi leikskólastarfs og þannig er það nú,“ sagði hún að lokum.