Kelly Ortberg, forstjóri Boeing, hefur heitið því að gjörbreyta menningu fyrirtækisins og segist vilja leysa þrjú helstu vandamál Boeing sem snúa að trausti, skuldum flugvélaframleiðandans og framleiðsluferli.

Þúsundir starfsmanna Boeing munu kjósa um nýjan samning á morgun en þeir hafa nú verið í verkfalli í tæpar fimm vikur.

Rekstrartap Boeing nam sex milljörðum dala á síðustu þremur mánuðum fram til loka september, rúmlega milljarði dala meira en á sama tíma í fyrra. Tekjur fyrirtækisins lækkuðu þá einnig um 1% niður í 17,8 milljarða dala.

„Þetta er stórt skip og það mun taka smá tíma að snúa því við, en þegar það gerist hefur það getu til að verða frábært á ný,“ segir Ortberg.

Boeing hefur glímt við erfitt ár en utan verkfallsins hefur fyrirtækið, bara á þessu ári, þurft að svara fyrir hátt í 12 uppákomur sem hafa slasað níu manns. Frægasta dæmið var þegar hluti úr skrokk vélar Alaska Airlines losnaði í janúar skömmu eftir flugtak en eftir það hafa dekk losnað og ýmsir íhlutir bilað í miðju flugi.