Samfylkingin kynnti útspil flokksins í húsnæðis- og kjaramálum á planinu við Bónus á Egilsstöðum um fjögurleytið í dag.
Fram kemur að Samfylkingin vilji hækka fjármagnstekjuskattinn úr 22% í 25%. Í tillögunni segir að samhliða vilji flokkurinn uppfæra frítekjumark vaxtatekna með hliðsjón af verðbólguþróun svo skattbyrði millitekjuhópa haldist óbreytt.
Þá segist flokkurinn vilja loka „ehf-gatinu“ til að koma í veg fyrir að launatekjur séu ranglega taldar fram sem fjármagnstekjur, að því er segir í bæklingnum.
Vilja „taka stjórn á Airbnb“ og leggja á tómthússkatt
Með þessu framkvæmdaplani sem kynnt er í dag vill Samfylkingin koma á framfæri vilja til að ráðast í „bráðaaðgerðir“ á húsnæðismarkaði til að halda aftur af hækkun fasteigna- og leiguverðs.
Með þessum aðgerðum hyggst Samfylkingin fjölga íbúðum á markaði um 2 þúsund næstu tvö árin umfram það sem núverandi spár gera ráð fyrir. Með því eigi að tryggja að fjölgun nýrra íbúða samsvari áætlaðri íbúðaþörf samkvæmt mati HMS.
Þessar bráðaaðgerðir felast m.a. í að „taka stjórn á Airbnb“. Herða eigi eftirlit og takmörkun heimagistingu við eigin lögheimili eða sumarbústað. Áfram yrði þó heimilt að leigja út heimili sitt eða sumarbústað í allt að 90 daga á ári.
„Heimilum sveitarfélögum að leggja svokallaðan tómthússkatt á tómar íbúðir (e. vacant home tax), þ.e. fasteignaskattsálag með skýrum undanþágum.“
Liðka fyrir umbreytingu skrifstofa í íbúðir
Þá vill Samfylkingin heimila uppbyggingu á færanlegu einingarhúsnæði til skammtímanota án deiliskipulagsbreytinga, t.d. á þróunarreitum. „Gerum kröfu um að byggt sé vandað húsnæði til leigu sem sendur á viðkomandi svæði í 10 til 15 ár en er svo flutt og fundin endanleg staðsetning.“
Samfylkingin vill einnig breyta byggingarreglugerð og skipulags- og mannvirkjalöggjöf til að flýta fyrir umbreytingu skrifstofuhúsnæðis í „vandaðar íbúðir“. Flokkurinn vill skapa hvata til slíkra framkvæmda gegnum stofnframlaga- og hlutdeildarlánakerfin.
Vilja greiða hlutdeildarlán til byggingaraðila
Meðal annarra aðgerða sem flokkurinn talar fyrir í húsnæðismálum er að hlutdeildarlán verði greidd út til byggingaraðila meðan íbúð er á framkvæmdastigi. Með því eigi að draga úr fjármögnunarkostnaði og skapa hvata til framkvæmda.
Samfylkingin segist vilja semja um „stórtæka uppbyggingu hlutdeildarlánaíbúða“ við byggingaraðila sem uppfylla ákveðin skilyrði.
Verulegur stuðningur til óhagnaðardrifinna félaga
Þá vill flokkurinn veita húsnæðisfélögum án hagnaðarsjónarmiða 60% endurgreiðslu á virðisaukaskatti við byggingu íbúða.
„Nýtum ríkislóðir til íbúðauppbyggingar og tryggjum að stór hluti íbúðanna verði á vegum óhagnaðardrifinna félaga.“
Samfylkingin segist vilja leggja niður sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélaga og koma upp einu samræmdu kerfi á vegum ríkisins með viðmiði um að húsnæðiskostnaður sé ekki umfram 40% af ráðstöfunartekjum.