Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt bandaríska fjármálaráðuneytinu að það ætti að hætta framleiðslu á koparmyntinni, sem jafngildir einu senti. Forsetinn skrifaði þetta í færslu á samfélagsmiðlinum Truth Social.
Tilkynningin kemur eftir að Elon Musk og ráðgjafaembætti hans og Vivek Ramaswamy um niðurskurð og sparnað (e. Doge) vöktu athygli á kostnaði koparmyntarinnar í færslu á X í síðasta mánuði.
Umræðan um áframhaldandi framleiðslu á myntinni er þó ekki ný af nálinni í Bandaríkjunum en samkvæmt ársskýrslu US Mint frá 2024 kostar framleiðsla og dreifing á myntinni í raun 3,69 sent.
Bandarískir þingmenn hafa áður fyrr lagt til að hætta framleiðslu á myntinni en án árangurs. Önnur lönd, eins og Kanada, hafa tekið svipaðar ákvarðanir en stuðningsmenn myntarinnar segja að hún hjálpi við að viðhalda lágu vöruverði og sé góð fjáröflun fyrir góðgerðarsamtök.