Páll Harðarson lauk störfum hjá Nasdaq á síðastliðnu ári eftir rúmlega tveggja áratuga starf í lykilhlutverkum innan Kauphallar Íslands og Nasdaq.
Páll nefnir, í viðtali í Viðskiptablaði vikunnar, að þátttaka almennings á markaðnum mætti stóraukast.
„Í dag eru um 30 þúsund innlendir fjárfestar á markaðnum en ef við berum okkur saman við Svíþjóð ættu þeir að vera um 100 þúsund. Það eru því mikil tækifæri til að fjölga þeim og efla hlutabréfamarkaðinn hérlendis.“
Ferill Páls hjá Kauphöllinni hófst árið 2002 þegar hann tók við stöðu rekstrarstjóra og aðstoðarforstjóra. Hann var skipaður forstjóri Kauphallar Íslands árið 2011 í kjölfar andláts Þórðar Friðjónssonar, fyrrverandi forstjóra, eftir skammvinna baráttu við krabbamein. Gegndi Páll hlutverkinu til ársins 2019.
Árið 2019 tekur hann síðan við stöðu fjármálastjóra evrópskra markaða hjá Nasdaq. Á árunum 2023-2024 bætir hann við sig Norður-Ameríkumarkaði og gegndi hann þá hlutverki fjármálastjóra markaðsviðskipta Nasdaq.
Stöðug efnahagsstjórn og lækkandi vextir lykilatriði
Til að stórauka þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði segir Páll mikilvægt að umgjörð markaðarins verði betrumbætt.
Bendir hann á mögulegar aðgerðir á borð við skattaafslætti og varfærin skref í átt að nýtingu séreignarsparnaðar til hlutabréfakaupa.
„Það er mikilvægt að skapa meiri og dýpri þekkingu á fjárfestingum og fjármálum meðal almennings. Hlutabréfamarkaðurinn er ekki aðeins vettvangur fyrir fjárfesta heldur lykilþáttur í að auðvelda fyrirtækjum að fjármagna sig og byggja upp atvinnulífið,“ segir Páll og leggur áherslu á að stöðug efnahagsstjórn og lækkandi vextir verði lykilatriði til að styðja við frekari vöxt markaðarins.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og annað efni úr blaðinu hér.