Tansaníska málmleitarfyrirtækið Baridi Group, sem Kristinn Már Gunnarsson stofnaði árið 2022 og leiðir, lauk á dögunum tæplega 900 milljóna króna hlutafjáraukningu, m.a. með þátttöku íslenskra fjárfesta, sem verður nýtt til að fjármagna framkvæmdir vegna fyrstu koparvinnslu félagsins.
Heildarvirði hlutafjár Baridi Group var metið á 53 milljónir dala, eða tæplega 6,5 milljarða króna.
Samkvæmt verðmati Fossa fjárfestingarbanka, ráðgjafa Baridi og umsjónaraðila útboðsins, gæti virði Baridi farið upp í 250 milljónir dala eða um 30 milljarða króna á næstu tveimur árum en matið byggir á að umrædd koparvinnsla verði þá komin á koppinn.
Greiningin byggir aðeins á tveimur rannsóknarleyfum félagsins en alls er Baridi með 47 leyfi víðs vegar um Tansaníu, þar á meðal fyrir kopar og liþíum.
Kristinn, sem er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun, stefnir á að skrá Baridi á hlutabréfamarkað, helst þann bandaríska, árið 2028 ef áætlanir félagsins ganga eftir.
Hann er með stórhuga áform um að vinna sem mest af efninu í Tansaníu, m.a. með það fyrir augum að stærsti hluti verðmætasköpunarinnar verði í nærumhverfinu með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á tansanískt samfélag.
Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Kristin um námuverkefnið í Tansaníu í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.
