Seðlabanki Íslands telur að samræma þurfi hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra lífeyrissjóða því sem almennt gildir á fjármálamarkaði. Bankinn telur að sambærilegt ákvæði ætti að vera í lögum um lífeyrissjóði um tilnefningarnefndir og er í lögum um fjármálafyrirtæki.
Þetta kemur fram í umræðuskýrslu um lífeyrissjóði sem birt var á heimasíðu bankans á þriðjudaginn.
Sjá ekki rök fyrir að minni kröfur séu gerðar til lífeyrissjóða
Seðlabankinn segir að ákvæði laga um lífeyrissjóði er ná m.a. til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og stjórnarhátta hafi tekið á sínum tíma mið af öðrum lögum á fjármálamarkaði. Hins vegar hafi ákvæði laga og reglna sem gilda um fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög tekið mun meiri breytingum á síðustu árum en lög um lífeyrissjóði.
Bankinn telur þannig að kveða mætti skýrar á um ábyrgð lífeyrissjóða að tryggja að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri uppfylli hæfisskilyrði laganna. Í ljósi stærðar og mikilvægis lífeyrissjóðanna sé brýnt að lagaumgjörð um þá sé ekki lakari en sú sem gildir um banka og vátryggingafélög.
„Mikilvægt er að samsetning stjórnar verði með þeim hætti að hún búi sameiginlega yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að skilja til hlítar þá starfsemi sem viðkomandi lífeyrissjóður stundar. Seðlabankinn telur ekki rök fyrir því að önnur ákvæði gildi í þessum efnum um lífeyrissjóði en á banka- og vátryggingamarkaði.“
Tryggja þurfi sjálfstæði stjórnarmanna – beint að aðilum vinnumarkaðarins?
Í skýrslunni kemur fram að Seðlabankinn telji brýnt að sett verði ákvæði í lög um lífeyrissjóði þess efnis að stjórnir séu sjálfstæðar og að í störfum sínum sé þeim einungis heimilt að hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi til samræmis við ákvæði laga um lífeyrissjóði.
Bankinn leggur til að skýrt verði kveðið á um það í lögunum við hvaða aðstæður heimilt sé að afturkalla umboð stjórnarmanna og að breytingar á stjórn lífeyrissjóðs skuli aðeins eiga sér stað á árs- eða aukafundi hans. Hafa mætti 64. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, sem fyrirmynd í þessum efnum.
„Með þeim hætti yrði komið í veg fyrir að skipunaraðilar geti skipt um stjórnarmenn án þess að boða til fundar og einnig gætu sjóðfélagar, í þeim tilvikum sem skipunar-og tilnefningaraðilar velja stjórnarmenn, veitt þeim aðhald við ákvarðanatöku sína, enda eiga sjóðfélagar lífeyrissjóða ávallt rétt til fundarsetu á ársfundum með umræðu- og tillögurétti, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga um lífeyrissjóði.“
Síðar í skýrslunni er bent á að í flestum tilfellum séu það aðilar vinnumarkaðarins sem velja í stjórnir lífeyrissjóðanna fyrir hönd sjóðfélaga.
„Skipun í stjórnir sjóðanna verður að mati Seðlabankans að vera fagleg og tryggja þarf stjórnarmönnum nægilegt sjálfstæði til að vinna í þágu sjóðfélaga við að hámarka ávöxtun eigna.“
Skýra ætti betur kröfur um góða stjórnarhætti
Seðlabankinn telur að leggja beri sambærilega skyldu á stjórnir lífeyrissjóða varðandi stjórnarhætti og gildir í annarri löggjöf á fjármálamarkaði til viðbótar við ákvæði sem fyrir eru um eftirlitskerfi lífeyrissjóða.
Bent er á að í 7. mgr. 54. gr. laga um fjármálafyrirtæki segir að stjórn skuli fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja og skuli hún birta árlega yfirlýsingu um stjórnarhætti í sérstökum kafla í ársreikningi eða ársskýrslu og gera grein fyrir stjórnarháttum sínum og starfskjarastefnu á vef fyrirtækisins. Þá skuli stjórn a.m.k. árlega meta stjórnarhætti félagsins og bregðast við annmörkum sem komi í ljós.
Þá telur Seðlabankinn að bæta ætti við sambærilegu ákvæði í lög um lífeyrissjóði og er í hlutafélagalögum varðandi kröfur til félagsstjórnar og framkvæmdastjóra og aðra þá sem heimild hafa til að koma fram fyrir hönd félagsins um að þeir megi ekki gera ráðstafanir sem eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.