Íslenska líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech tilkynnti í vikunni að það stefndi á skráningu í kauphöllina í New York með samruna við sérhæfða yfirtökufélagið (e. SPAC) Oaktree Acquisition Corp II. Samhliða því verður félagið líka skráð á First North markaðinn á Íslandi. Sérhæfð yfirtökufélög hafa notið gífurlegra vinsælda á fjármálamörkuðum undanfarið, þótt markaðurinn fyrir slík félög hafi eilítið kólnað undanfarna mánuði.
Róbert Wessman, stjórnarformaður og einn af aðaleigendum Alvotech, segir að félagið hafi skoðað skráningu á markað með hefðbundnu hlutafjárútboði en hafi á endanum ákveðið að fara þessa leið.
„Með sérhæfðu yfirtökufélagi er auðveldara að átta sig á markaðsvirði félagsins, en um það er samið við sameiningu. Það hvernig félagið var skráð á markað skiptir á endanum ekki höfuðmáli heldur hvernig fyrirtækið stendur sig í að ná markmiðum sínum og skila árangri í rekstri. Þegar ljóst varð að félagið stefndi á markað í New York sýndi Oaktree því mikinn áhuga að koma að skráningunni. Við fengum boð frá öðru mjög virtu félagi og höfðum því úr tveimur mjög álitlegum kostum að velja. Við völdum Oaktree einfaldlega vegna farsæls samstarfs okkar síðustu þrjú ár."
Fyrirhugað er að skrá Alvotech á First North markaðinn á Íslandi á svipuðum tíma og skráningin í Bandaríkjunum fer fram. Róbert segir tæknilega hafa verið of flókið að skrá fyrirtækið á tvo aðalmarkaði á sama tíma, en ekki er ólíklegt að Alvotech færi sig yfir á aðalmarkað hérlendis með tímanum.
„Það tók dálítinn tíma að koma Oaktree í skilning um að við hygðumst skrá okkur á stærsta hlutabréfamarkað í heimi og sennilega einn minnsta á sama tíma. Þeir studdu okkur síðan heilshugar með þá ákvörðun að veita Íslendingum gott aðgengi að félaginu," segir Róbert, en hann segir mikinn áhuga á félaginu hérlendis vera ástæðuna fyrir tvískráningunni.
Oaktree er einn virtasti fjárfestingasjóður heims þegar kemur að óhefðbundnum fjárfestingum, t.a.m. í óskráðum skuldabréfum. Samstarf Oaktree og Alvotech nær aftur til ársins 2018, en sjóðurinn hefur verið einn stærsti lánveitandi félagsins.
Stofnandi og stjórnarformaður Oaktree er Howard Marks, einn þekktasti fjárfestir heims, en hann er oft nefndur í sömu andrá og fjárfestar á borð við Warren Buffett og George Soros og vekja árleg bréf hans til hluthafa og fjárfesta Oaktree ávallt mikla athygli fyrir áhugaverðar vangaveltur og greiningar. Róbert segir það mikla viðurkenningu að fjárfestir á borð við Howard Marks vilji koma að Alvotech.