Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur lagt til að við verkefnisstjórn rammaáætlunar að vindorkukosturinn Garpsdalur í Reykhólahreppi verði settur í orkunýtingarflokk rammaáætlunar. Þetta er í fyrsta sinn sem ráðherra leggur til breytingu á tillögu verkefnisstjórnar að virkjunarkostur fari í nýtingarflokk.

Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins en tillagan birtist í samráðsgátt í dag og rennur umsagnarfrestur út 29. september 2025.

Verkefnisstjórn rammaáætlunar lagði í maí síðastliðnum til við ráðherra að Garpsdalur og níu aðrir vindorkukostir í 5. áfanga rammaáætlunar yrðu settir í biðflokk. Alþingi hafði áður sett Garpsdal í nýtingarflokk.

Tillagan um flokkun vindorkukostanna tíu vakti hörð viðbrögð meðal hagsmunaaðila en í rökstuðningi verkefnisstjórnar komu fram ýmis sjónarmið fram þar sem hvert verkefni var talið hafa neikvæð áhrif á einn eða annan hátt. Þá var bent á að framtíðar stefnumótun stjórnvalda í málaflokknum væri ekki lokið. Í dag eru tveir vindorkukostir í nýtingarflokk, Vaðölduver (áður Búrfellslundur) og Blöndulundur.

Viðskiptablaðið greindi frá því árið 2019 að EM Orka ehf. áformaði að reisa allt að 130 MW vindorkugarð, með 35 vindmyllum á 3,3 ferkílómetra svæði 500 metrum yfir sjávarmáli í landi Garpsdals við Gilsfjörð í Reykhólahreppi.

Í tilkynningu ráðuneytisins er bent á að virkjunarkosturinn Garpsdalur hafi fengið jákvæðari umsagnir frá faghópum en aðrir kostir sem voru til umfjöllunar, bæði hvað varðar áhrif á náttúru og samfélag. Þá virðist meiri sátt ríkja um kostinn í nærsamfélaginu en um aðra vindorkukosti.

Það sem helst hafi mælt gegn því raða Garpsdal í nýtingarflokk að mati verkefnisstjórnar rammaáætlunar væru ný gögn um farleiðir hafarna sem sýndu að hafernir flygju í „einhverjum tilvikum nálægt og mögulega yfir mögulegt virkjunarsvæði í Garpsdal.” Ráðherrann bendir á að haförninn sé á meðal sjaldgæfustu varpfugla landsins og á lista yfir tegundir í hættu og leggur áherslu á að gætt sé varúðar í þessum efnum, frekari greiningar fari fram og að leitað verði leiða til að eyða óvissu um möguleg áhrif virkjunar á haförninn. Byggt á því verði hugað að mótvægisaðgerðum við frekari þróun virkjunarkostsins.

Ráðherran stefnir á að leggja fram þingsályktunartillögu um breytta flokkun Garpsdals samhliða kynningu á vindorkustefnu og breyttri lagaumgjörð um vindorkunýtingu á næsta löggjafarþingi. Aðrir vindorkukostir í tillögum verkefnisstjórnarinnar muni fá áframhaldandi umfjöllun hjá nýrri verkefnisstjórn rammaáætlunar sem skipuð var 12. júní sl.

„Við tökum eitt skref í einu í vindorkunni og gefum ekki grænt ljós á frekari framkvæmdir fyrr en skýr rammi og lagaumgjörð liggur fyrir. Þar verður lögð áhersla á að verja náttúruverðmætin sem við eigum hérna saman og tryggja sátt og samstöðu í nærsamfélaginu,“ segir Jóhann Páll.