Hag­kaup, líkt og Costco og aðrar verslanir, hefur á­fengi ekki til sýnis í verslunum sínum.

ÁTVR hefur þó árum saman selt á­fengi innan um verslanir utan höfuð­borgar­svæðisins í gegnum sam­starfs­samninga um sölu á­fengis.

Fyrsta „sam­starfs­verslun“ ÁTVR var opnuð í Ólafs­vík árið 1987 er á­fengi var selt innan um Verslunina Þóru, sem var fata­verslun og seldi meðal annars barna­föt.

Að mati ÁTVR var þetta hag­kvæmt þar sem á­lags­tímar fata­verslunarinnar og vín­búðarinnar voru ekki þeir sömu.

Mörgum óviðeigandi að vín væri selt í kringum barnavörur en ríkisverslunin lét sér fátt um finnast því það var svo auðvelt að loka víndeildinni ef þess þyrfti.

Í Búðar­dal og Fá­skrúðs­firði var rekin á­fengis­sala við hlið hár­greiðslu­stofu. Á Blöndu­ósi, Dal­vík og Húsa­vík var á­fengi selt í fata­hreinsunum.

Bensín­stöð Esso að Breiðu­mörk í Hvera­gerði sá einnig um á­fengis­sölu fyrir ÁTVR um tíma.

Þó að sam­starfs­verslunum hafi vissu­lega fækkað með opnun fleiri vín­búða, þá er rétt að minnast þess að árið 2006 voru 26 slíkar starfandi hér á landi þar sem Ís­lendingar keyptu vín innan um aðra verslun.

Það ætti því ekki að vera framandi sjón fyrir ís­lenska þjóð að versla vín innan um aðra verslun.

Af ein­hverjum ein­kenni­legum á­stæðum hefur ríkis­verslunin ekki viljað gera sam­starfs­samninga við mat­vöru­verslanir. Af úrskurðum umboðsmanns Alþingis og Samkeppnisráðs að dæma réðu samkeppnislegar forsendur því fremur en lýðheilsulegar.

Vín í Krútt kökuhúsi fremur en kaupfélagi

Árið 1994 kvartaði Ei­ríkur Tómas­son, fyrr­verandi hæsta­réttar­dómari en þá­verandi lög­maður Kaup­fé­lags Hún­vetninga, til bæði um­boðs­manns Al­þingis og Sam­keppnis­ráðs (for­vera Sam­keppnis­eftir­litsins) fyrir hönd KH yfir þeirri á­kvörðun ÁTVR að úti­loka Kaup­fé­lagið í út­boði um rekstur vín­búðar á Blöndu­ósi.

„Máls­at­vik eru í stuttu máli þau að ÁTVR birti aug­lýsingu í dag­blöðum 27. nóvember 1993 þar sem aug­lýst var eftir hús­næði undir vín­búð á Blöndu­ósi og eftir sam­starfs­aðila um rekstur verslunarinnar. Í aug­lýsingunni kom fram að ÁTVR myndi velja aðila úr röðum þeirra, sem á­huga hefðu, og bjóða þeim þátt­töku í út­boði, þá væntan­lega lokuðu út­boði,“ segir í bréfi Ei­ríks til Sam­keppnis­ráðs en ríkis­verslunin hafnaði boði Kaup­fé­lagsins.

Í bréfi for­stjóra ÁTVR kemur fram að tveir af þeim sem lýstu á­huga á þátt­töku í út­boði ráku mat­vöru­verslanir og til að raska ekki sam­keppnis­stöðu þeirra hafi verið á­kveðið að hafna sam­starfi við þá á þeirri for­sendu.

„Af þeim sem þá voru eftir var að­eins einn talinn hæfur, þ.e. Krútt Köku­hús. Hætt var við út­boð og gengið til samninga við Krútt Köku­hús um sam­starf.“

Kaupfélagið hét því að vínbúðin yrði rekin í byggingarvörudeild sinni en það dugði ekki til.

Það er áhugavert að sjá lýðheilsusjónarmið réðu ekki för í ákvörðun ÁTVR heldur vildi ríkisverslunin ekki gefa samkeppnisforskot til einnar matvöruverslunar.

Þegar sagan er skoðuð er erfitt að sjá al­vöru lýð­heilsu­stefnu í á­kvörðunum um aðgengi heldur sést vilja­leysi stjórn­mála­manna fyrir auknu við­skipta­frelsi.

Verslunum fjölgað um 66% frá aldamótum

Árið 2000, þegar Geir H. Haarde fjármálaráðherra keypti fyrstur vín á netinu og fékk það heim að dyrum, voru 35 á­fengis­verslanir starfandi á Ís­landi.

Því var fagnað á árum áður þegar aðgengi var aukið.
© Skjáskot (Skjáskot)

Sam­kvæmt heima­síðu ÁTVR eru 58 vín­búðir að með­töldum af­hendingar­stöðum í Gríms­ey, Raufar­höfn og Borgar­firði Eystra starfandi í dag.

Ríkis­verslunin hefur þannig fjölgað stöðum þar sem á­fengi er að­gengi­legt um tæp­lega 66% frá alda­mótum. Lang­stærstur hluti fjölgunarinnar átti sér stað milli 2000 og 2010.

Það þótti mikið fagnaðarefni þegar verslunum ÁTVR fjölgaði með tilheyrandi auknu aðgengi á árum áður.

Ný verslun ÁTVR opnuð í Borgarnesi.
© Skjáskot (Skjáskot)

Þó að erlendar netverslanir séu flestar með strangari reglur fyrir kaupum en ÁTVR er þeim þó ekki fagnað með sama hætti. Það virðist því mestu skipta að reksturinn sé í höndum ríkisins fremur en að aðgengi sé hert.

Áskrifendur geta lesið lengri umfjöllun Viðskiptablaðsins um einokunarverslun með áfengi hér.