Steinþór Helgi Arnsteinsson og Ásgeir Guðmundsson, meðeigendur og stofnendur Röntgen bars, og matreiðslumaðurinn Davíð Örn Hákonarson, hafa opnað staðinn Skreið á Laugavegi 4, sem hefur einkunnarorðin „vín, verslun og tapas.“ 

„Skreið er stemningsstaður með vín og smárétti. Dýrasti rétturinn er á 2.500 krónur og er hugmyndin sú að fólk geti fengið sér marga rétti á viðráðanlegu verði. Þetta er einfaldur matseðill en góð hráefni, gert á góðan hátt,“ segir Steinþór í samtali við Viðskiptablaðið.

Matreiðslumaðurinn og sjónvarpsmaðurinn Davíð Örn Hákonarson, sem er meðal þriggja eigenda Skreið, hefur verið með sjónvarpsþætti á Stöð 2 og nú síðast þáttaröðina Matarboð hjá Sjónvarpi Símans.

„Ég hef lengi vel verið mikill aðdáandi baskneskrar og almennt spænskrar matargerðar. Við Ásgeir vildum endilega fá Davíð til liðs við okkur, en hann hefur einmitt verið að vinna í San Sebastian í Baskalandi,“ segir Steinþór.

Eldhúsið er á efstu hæð hússins en aðalrýmið á miðjuhæðinni. Þá er verslun á fyrstu hæð með ýmsum vörum tengdum veitingastaðnum, allt frá kokkteilahristurum og vínglösum yfir í ansjósur og ólífuolíur.

Nánar er fjallað um Skreið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun.