Ný ríkisstjórn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins hyggst vinda ofan „ólöglegum breytingum á búvörulögum“ með frumvarpi á fyrstu dögum þingsins. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra tilkynnti þetta á blaðamannafundi sem hófst klukkan fjögur. Þar voru kynnt helstu mál á þingmálskránni sem hefur nú verið birt.
„Á síðasta ári voru gerðar breytingar á búvörulögum sem kipptu í rauninni samkeppnislögum úr sambandi. Við ætlum að laga þetta. Við viljum draga fram að breytingarnar sem voru gerðar voru ekki í neinu samhengi við það sem að gengur og gerist í heiminum varðandi þessi viðmið um frjáls viðskipti,“ sagði Þorgerður.
Þorgerður sagði að ríkisstjórnin ætli samhliða þessum breytingum að vinna að gerð nýs frumvarps sem geri framleiðendafélögum líka kleift að hagræða í sinni starfsemi „eins og gengur og gerist í löndunum í kringum okkur en á forsendum almennra laga um samkeppni“.
Orkumál „ekki lengur skúffumál“
Þorgerður sagði ríkisstjórnina einnig ætla að höggva strax á hnútinn í orkumálum. „Þau verða ekki lengur skúffumál heldur forgangsmál hjá þessari ríkisstjórn.“
Meðal einstakra mála nefndi hún sérlög um Hvammsvirkjun. Þá sé von á frumvarpi um breytingar á lögum um stjórn vatnamála og á raforkulögum.
Þá sé stefnt að því að einfalda, hraða og samræma málsmeðferð þegar kemur að leyfisveitingum. Ríkisstjórnin sé með hugmyndafræði um einn viðkomustað í leyfisveitingum. Frumvarp þess efnis sé væntanlegt í mars.
Þá ætli ríkisstjórnin að gera breytingar í sjávarútvegi „sem auka gegnsæi og réttlæti í greininni“. Frumvarp um 48 dagar til strandveiða verði lagt fram í mars.
Frumvarp um breytingar á veiðigjaldinu, „þannig að það endurspegli betur raunveruleg verðmæti“ er einnig væntanlegt í mars.
Kristrún boðar frumvarp um stöðugleikareglu
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra boðaði á blaðamannafundinum frumvarp um stöðugleikareglu í fjármálum ríkisins. Kristrún sagði að með stöðugleikareglunni verði ekki bætt við viðbótarútgjöldum án þess að það sé tekjuöflun á móti eða hagræðing.
„Þetta er til þess að fjármál ríkisins styðji við lægri vexti og frumvarp um þetta kemur fram núna strax í febrúar.“
Þess má geta að Samtök atvinnulífsins sögðu í hagræðingartillögum til ríkisstjórnarinnar að stöðugleikaregla sé þung í framkvæmd „þar sem ógjörningur er að áætla framleiðsluslaka- eða spennu í hagkerfinu í rauntíma“. Þess í stað lögðu SA til einfalda útgjaldareglu, sem markar þak á vöxt útgjalda hins opinbera.
Kristrún sagði að á þingmálaskránni verði einnig að finna frumvarp um kílómetragjöld og frumvarp um veiðigjald. Síðarnefnda frumvarpið verði að öllum líkindum lagt fram að í mars.
Þá sagði hún að von sé á frumvörp í takti við boðaðar bráðaaðgerðir í húsnæðismálum, líkt og að taka á skammtímaútleigu á Airbnb sem felst í að takmarka heimagistingu við lögheimili eða frístundahús. Kristrún sagði mikilvægt að tryggja að íbúðir sem eru í heilsársútleigu séu skráðar sem atvinnuhúsnæði.
Ríkisstjórnin hyggst einnig lækka fjármögnunarkostnað hjá húsnæðisfélögum á hagnaðarsjónarmiða, annað hvort í gegnum undanþágu frá virðisaukaskatti eða hærri stofnframlögum.
Meðal annarra aðgerða á húsnæðismarkaði sem Kristrún sagði að von sé eru aðgerðir til að liðka fyrir uppbyggingu einingahúsa og eins liðka fyrir umbreytingu atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Þá hyggst ríkisstjórnin einnig tryggja skilvirkari framgang hlutdeildarlánanna.
Hvað varðar leigumarkaðinn þá standi til að innleiða skráningarskyldu leigusamninga til að ná fram heildstæðari mynd af þróun leigumarkaðarins.
Nýtt embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði m.a. að fyrstu skref verði tekin til að bæta kjör öryrkja og eldra fólks. Lögum verði breytt svo að aldursviðbót örorkulífeyris haldist ævilangt en falli ekki niður þegar öryrki verður 67 ára gamall eins og nú sé. Áætlaður kostnaður frumvarpsins, sem boðað er í mars, er um 200 milljónir króna í ár.
„Við munum koma á stöðu embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Hann tekur til starfa núna fljótlega og mun leiða vinnu við að kortleggja félagslega stöðu og réttindi eldra fólks.“
Inga boðaði einnig lög sem ætlað er að stöðva kjaragliðnun launa og lífeyris. Örorku- og ellilífeyrisgreiðslur munu þannig hækka á hverju ári til samræmis við hækkun launavísitölu, þó aldrei minna en verðlag. Frumvarp þess efnis verður lagt fram í mars.