Ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að stöðva veitingu framkvæmdaleyfa fyrir vindorkuverkefni á hafi hefur reynst geiranum þungt högg.
Ráðgjafafyrirtækið Rystad Energy áætlar að um 90% verkefna séu í mikilli hættu, á sama tíma og orkugeirinn hefur glímt við erfiðar markaðsaðstæður undanfarin ár. Ákvörðun Trumps er þá talin ógna markmiðum Bandaríkjanna um sjálfbæra orkunýtingu.
Samkvæmt frétt Financial Times hafa stór olíufyrirtæki á borð við Shell og TotalEnergies til að mynda dregið sig úr verkefnum í Bandaríkjunum sökum þessa. Talið er að um 40 milljörðum dala hafi verið fjárfest í vindorkuverkefni á hafi í Bandaríkjunum og að evrópsk fyrirtæki hafi fjárfest í meira en helmingi allra verkefna sem lengra eru á veg komin.
Fréttin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 5. mars.