Haukur Skúlason, framkvæmdastjóri og annar stofnenda indó, segir mikið hagræði fólgið í því fyrir félagið að vera smærra í sniðum en stóru bankarnir. Það geti hreyft sig hratt, lagað sig að þörfum viðskiptavina, og skapað verðmæti með nýstárlegu vöruframboði.

Haukur Skúlason, framkvæmdastjóri og annar stofnenda indó, segir mikið hagræði fólgið í því fyrir félagið að vera smærra í sniðum en stóru bankarnir. Það geti hreyft sig hratt, lagað sig að þörfum viðskiptavina, og skapað verðmæti með nýstárlegu vöruframboði.

„Ég hef litla trú á að stærðarhagkvæmni í rekstri banka sé jafn auðsótt og margir vilja vera láta, þ.e. að því stærri sem þú ert því sterkari ertu á markaðnum. Það er mjög snúið að ná fram stærðarhagkvæmni og ég tel að raunverulegt samkeppnisforskot felist ekki í stærð efnahagsreiknings eða mestri breidd vöruúrvals. Samkeppnisforskotið felst í að geta straumlínulagað þig og ákveðið nákvæmlega hvaða þjónustu þú ætlar að sinna og ekki að sinna.

Við getum hreyft okkur hraðar en stóru bankarnir og við viljum marka okkar eigin syllu á markaðnum. Það á við í þessum geira eins og í öðrum geirum að þegar einhver er orðinn of stór og ætlar sér að gera of mikið þá gerir hann allt illa. Að auki tel ég ekki aðalatriðið fyrir banka að vera með stóran efnahagsreikning, heldur að nýta hann sem allra best.“

Vinna eftir langtímaáætlun

Spurður út í framtíðar vöruframboð indó segir hann félagið vinna eftir áætlun til langs tíma. Í viðtali hjá Viðskiptablaðinu í fyrra sögðu stofnendur indó, þeir Haukur og Tryggvi Björn Davíðsson, að húsnæðislán myndu líklega ekki henta rekstri félagsins. Framtíðarstefna indó hefur ekki breyst síðan þá en Haukur segir þó ýmsar aðrar leiðir fyrir indó við að aðstoða fólk við kaup á húsnæði.

„Við viljum gera hlutina í réttri röð á réttum tíma og erum með alls konar hugmyndir á teikniborðinu. Við ætlum ekki í húsnæðislánin enda eru innlánin okkar til skamms tíma. Við sjáum þó fyrir okkur að geta aðstoðað við þessi lán í framtíðinni með ýmsum leiðum, t.d. mögulega með milligöngu þeirra á meðan aðrir sjá um að fjármagna lánið, enda heilmikið pláss á markaðnum til að koma með nýjungar.“

Hann segir auk þess tækifæri fyrir nýja aðila að að aðstoða fólk við útborgun vegna íbúðarkaupa með brúarláni. Hann er ósammála þeirri nálgun að veita sömu húsnæðislánavexti til allra viðskiptavina.

„Áhættan er ávallt einstaklingsbundin og það á að meta mismunandi viðskiptavini út frá þeim grunni en ekki út frá verðskrá viðkomandi banka. Mér hefur fundist stóru bankarnir latir í því að meta þörf viðskiptavinarins og sníða vörur að þörfum og áhættusniði þeirra,“ bætir Haukur við.

Nánar er rætt við Hauk í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni.