Stjórn útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum og hluthafar í Ós ehf. og Leo Seafood ehf. hafa undirritað viljayfirlýsingu um kaup Vinnslustöðvarinnar á öllu hlutafé í félögunum tveimur. Tíðindin voru kynnt á starfsmannafundum félaganna sem koma við sögu í morgun. Fiskifréttir greina frá.
Viljayfirlýsingin er með fyrirvörum um tiltekin atriði en gangi kaupin eftir er gert ráð fyrir að samningar þar að lútandi verði undirritaðir á næsta ári.
Ós ehf. á og gerir út Þórunni Sveinsdóttur VE-401 og Leo Seafood ehf. starfrækir fiskvinnslu í Eyjum. Eigendur félaganna eru Sigurjón Óskarsson útgerðarmaður og fjölskylda hans. Þórunni Sveinsdóttur fylgir 3.749 tonna þorskígildiskvóti.
Ós velti 1,8 milljörðum króna á síðasta ári en félagið hagnaðist um 339 milljónir. Eignir Óss námu 3,9 milljörðum í árslok 2021 og eigið fé var um 2,7 milljarðar.
Leo Seafood hagnaðist um 94 milljónir króna á síðasta ári en velta félagsins nam 1,9 milljörðum. Eignir Leo Seafood voru bókfærðar á 1,8 milljarða í lok síðasta árs og eigið fé var 562 milljónir.