Farice, fjarskiptafélag í eigu íslenska ríkisins, sem á og rekur tvo fjarskiptasæstrengi sem tengja Ísland við Evrópu, hefur nú tekið formlega við IRIS-strengnum (Írisi) frá Subcom sem lagði strenginn í sumar.

Í tilkynningu segir að nú verði unnið að því að tengja fjarskiptanet á Íslandi og Írlandi og þaðan áfram til Evrópu. Áætlað sé að Íris verði formlega tekin í notkun á fyrsta ársfjórðungi 2023.

Íris, sem er þriðji fjarskiptasætrengurinn sem tengir Ísland við Evrópu, liggur milli Þorlákshafnar á Íslandi og Galway á Írlandi og þaðan áfram til Dublinar, Lundúna, Hollands, Þýskalands, Danmerkur og fleiri Evrópulanda.

Farice skrifaði undir samning við bandaríska strengjaframleiðandann SubCom um að leggja nýja strenginn til Írlands og hafa fyrirtækin nú lokið prófunum á strengnum og staðfest virkni hans samkvæmt hönnun. Um var að ræða síðasta áfangann áður en SubCom afhenti strenginn formlega sem gert var síðastliðinn föstudag í Galway.

ÍRIS er búinn sex ljósleiðarapörum og hefur strengurinn flutningsgetu upp á 132Tb/s og aðeins 10,5 ms umferðartíma milli Reykjavíkur og Dublinar.

„Íris er nýr fjarskiptasæstrengur milli Íslands og Írlands sem eykur stórlega fjarskiptaöryggi íslensks samfélags við erlend ríki, til hagsbóta og framfara fyrir bæði almenning og atvinnulíf. Ásamt grænni endurnýjanlegri orku mun Íris auka verulega samkeppnishæfni Íslands fyrir þjónustu gagnavera, skýjaþjónustuaðila og háhraða tölvuvinnslu. Með tengingu Íslands og Írlands skapast ný tækifæri fyrir bæði lönd til aukins samstarfs í hinum sístækkandi stafræna heimi,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar, í orðsendingu til Galway.

Þorvarður Sveinsson, forstjóri Farice, sagði við afhendingu strengsins að Íris gerði fyrirtækinu kleift að auka fjarskiptaöryggi landsins við Evrópu með nýjum tengipunkti frá Þorlákshöfn ásamt auka flutningsgeti á netumferð milli Íslands og Evrópu.