Vinnu­markaðstölur í Bandaríkjunum sýndu að efna­hagur landsins er enn sjóðheitur er 256 þúsund ný störf bættust við í síðasta mánuði.

Mun það vara mun meira en greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um en sam­kvæmt The Wall Street Journal setur þetta vaxtalækkunar­ferli seðla­bankans í upp­nám.

Næsta vaxtaákvörðun Seðla­bankans er 29. janúar en sam­kvæmt WSJ er nær úti­lokað að vextir verði lækkaðir á fundinum.

Hluta­bréf lækkuðu í utan­þings­við­skiptum eftir að vinnumálaráðu­neytið greindi frá tölunum á meðan ávöxtunar­krafa ríkis­skulda­bréfa til tíu ára hækkaði úr 4,70% í 4,79%.

Þrátt fyrir að vinnu­markaðstölur dagsins séu lík­legar til að hella olíu á verðbólgu­bálið eru þær engu að síður góðar fréttir fyrir efna­hag Bandaríkjanna sem er greini­lega á miklu skriði.

Í heildina litið urðu til 2,2 milljónir nýrra starfa í Bandaríkjunum í fyrra sem er um tvöfalt fleiri störf en hag­fræðingar og greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um.

Meðaltíma­kaup hækkuðu einnig um 0,3% milli mánaða og stóð í 35,69 dölum, sem sam­svarar um 5 þúsund krónum á tímann, en það mun vera 3,9% hærra en í desember 2023.