Bjarni Benediktsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, telur vinnumarkaðinn vera „stórkostlega vanmetinn orsakavaldur verðbólgu“ hér á landi. Hann telur umræðu um þátt fjármál hins opinbera í hárri verðbólgu undanfarinna ára vera blásin úr öllu samhengi.
Í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark sagði Bjarni að honum hafi þótt vera kominn ákveðinn samhljómur meðal nokkurra fjölmiðla og stjórnarandstaðan hafi öll verið sannfærð um að há verðbólga á síðustu árum megi að mestu leyti rekja til ríkisfjármálanna. Hann hafi fundið fyrir þessari umræðu víða í samfélaginu.
„Í mínum huga er þetta vitleysa. Þetta er misskilningur. Við vorum að bæta afkomu ríkissjóðs mikið frá ári til árs og aðhald ríkisfjármálanna var bara ágætlega að kallast á við aðgerðir Seðlabankans,“ sagði Bjarni.
„Það sem er raunverulega að setja þrýsting á verðbólguna í landinu - og við þurfum að finna leiðir til þess að ná betur utan um - er bara launaþróunin á Íslandi. Það er svo miklu, miklu stærra mál heldur en einhverjar 5 og 6 milljarða hagræðingaraðgerðir í stjórnarráðinu frá einum tíma til annars.“
Með kíkinn á blinda auganu
Hann vísaði í nýlegar tölur frá Hagstofunni um launaþróun á árinu 2024 sem hann telur gefa til kynna að enn sé mjög ör taktur í launahækkunum, nánast sama á hvaða stétt sé litið. Fyrr í mánuðinum greindi Hagstofan frá því að vísitala heildarlauna á fjórða ársfjórðungi hefði hækkað um 6,3% á milli ára.
„Þessi aðferð sem við höfum verið að nota á undanförnum árum í þessum stóru kjarasamningum þar sem að langmest hefur farið til þeirra sem að eru lægst í tekjustiganum – henni er auðvitað ætla að tryggja þá endanlegu niðurstöðu.
En þegar við skoðum í baksýnisspeglinum, þá sjáum við að launin eru ítrekað að hækka upp allan stigann. Sama hvernig þú snýrð þessum teningi þá endar þú alltaf bara með þá hlið uppi að þetta miklar launahækkanir munu skila meiri verðbólgu heldur en þar sem að launahækkanir eru hóflegri og meira í takt við framleiðniaukningu.“
Bjarni sagði því að samfélagið muni sitja uppi með hærri vexti til lengri tíma verði laun áfram hækkuð um 6-7% á hverju ári.
„Hættum þá að rífast um einhverjar 5 og 6 milljarða hagræðingartillögur í þeirri trú að það sé það sem að valdi verðbólgunni.
Þarna finnst mér menn setja bara kíkinn á blinda augað. Það er ekki verið að ræða stóra verkefnið sem er það hvernig við semjum um kaup og kjör á Íslandi, hvað við hefðum getað gert öðruvísi og betur til þess að halda aftur af launaskriðinu.“
Hann nefndi nokkrar skýrslur um vinnumarkaðinn sem hafa komið út á undanförnum, þar á meðal frá Katrínu Ólafsdóttur og Arnóri Sighvatssyni. Þær gefi flestar til kynna að það sem einkenni íslenskan vinnumarkað séu hærri launahækkanir en í samanburðarríkjum með tilheyrandi áhrifum á verðbólguþróun og þar af leiðandi vaxtastigið.
Merki um höfrungahlaup
Bjarni sagði áfram vera merki um höfrungahlaup á vinnumarkaðnum. Spurður hvernig hægt sé að sporna við þessari þróun, sagðist hann telja að þörf á dýpra og betra samtali milli helstu hagaðila.
„Við verðum að viðurkenna lögmál hagfræðinnar í þessu. Ef þú tekur meira út en innistæða er fyrir, ef þú hækkar laun meira en framleiðniaukningin leyfir þá eru allar líkur á að þú sért að grafa undan sjálfum þér og að þú endir með verðbólgu umfram það sem þú telur ásættanlegt. Ef verðbólgan er of há þá færðu hærri vexti, sem er tæki Seðlabankans til að halda aftur af verðbólgunni.“
Bjarni sagðist skilja sjónarmið leiðtoga stéttarfélaga sem segjast tala fyrir hópa einstaklinga sem séu margir hverjir á berstrípuðum launatöxtum. Þessir forsvarsmenn verkalýðsfélag segi að það sé ekki launaskrið hjá sínum tiltekna hópi.
„En ef niðurstaðan er alltaf sú að samningar sem eru þannig úr garði gerðir að tryggja hagsmuni þessara hópa, ef þeir leiða síðan til launaskriðs hjá öllum öðrum þá verðum við bara að horfast í augun með það saman.
Ef við náum mönnum ekki saman í kringum þetta borð um að horfa á þetta af einhverri raunsæi og sanngirni þá erum við föst í þessu sama fari.“
Hver gaf fjárheimildir fyrir launagreiðslum umfram kjarasamninga?
Bjarni tók undir að það væri mikið áhyggjuefni hversu mikið launaskrið hafi orðið í opinbera geiranum, bæði hjá ríki og sveitarfélögum.
„Þá eru menn að hækka laun umfram kjarasamninga. Ég held að þingið ætti að spyrja sig, hvaðan koma fjárheimildirnar? Hver gaf fjárheimildir fyrir launagreiðslur sem voru umfram kjarasamninga. Þær komu allavega ekki frá fjármálaráðuneytinu inn í fjárlagafrumvarpið.
Það er enginn fjárlagaliður í fjárlögum sem segir: „Heyrðu og svo erum við með slatta fyrir launahækkanir umfram kjarasamninga“.“
Gengur ekkert að segja bara „helvítis krónan“
Bjarni fagnaði því að verðbólgan sé nú á leiðinni niður og horfur til skemmri tíma líti ágætlega út.
„En ef við viljum til sjá vaxtastig til lengri tíma sem líkist því sem er hjá nágrannalöndunum, þá gengur ekkert fyrir fólk sem vill láta taka sig alvarlega í þessari umræðu að segja bara „helvítis krónan“ eða „það er verið að fara illa með opinbert fé“.“
Hann vísaði í nýlega grein eftir Thomas Möller, stuðningsmanni Viðreisnar og Evrópusinna, sem talaði fyrir því að tryggja þurfi að laun hækki ekki meira en framleiðniaukning bjóði upp á þegar búið er að taka upp evruna.
„Ég las þetta og hugsaði „Tómas þetta er rangt, þetta þarf að gerast núna með krónunni“. Það á ekki að nota evruna sem einhvers konar vogarafl til þess að komast á þennan stað.
Það sem gerist þá er að ef þú tekur upp evruna og reynir að haga þér svona eins og við gerum núna, þá tekur þú ójafnvægið út í gegnum atvinnuleysi. Þeir sem halda að þetta leysist bara að sjálfu sér með nýjum gjaldmiðli, þeir hafa rangt fyrir sér.“
Auðvelt að tala bara um bætt innkaup
Bjarni áréttaði að hann væri þó þeirrar skoðunar að hægt sé að fara mun betur með opinbert fé, bæði hjá ríkinu og sveitarfélögum. Það sé stöðugt verkefni sem ljúki aldrei að nýta opinbert fé betur.
Bjarni var jákvæður í garð hagræðingarátaks nýrrar ríkisstjórnarinnar en segir stóru spurninguna vera hvaða hagræðingartillögur starfshóps forsætisráðherra ríkisstjórnin ætli að framkvæma.
Hann telur einnig skjóta skökku við að 30 milljarðar af hinum 71 milljarðs króna hagræðingartillögum snúa einfaldlega að því að ná fram 2% hagræðingu í opinberum innkaupum.
„Bíddu hver ætlar að gera það upp síðan þegar uppi er staðið, hvort þú náðir 1% betri innkaupum eða hvort þú náðir bara verri innkaupum. Hvernig á þetta að vera mælanlegt í einhverju samhengi?“ spurði Bjarni og nefndi til viðbótar að lögð hafi verið vinna í bætt innkaup með Ríkiskaupum.