Fréttamiðillinn WSJ ræddi nýlega við fjölmarga núverandi og fyrrum starfsmenn Bank of America sem lýsa eitraðri vinnustaðamenningu sem neyðir fólk til að vinna langt fram á nóttu og ljúga svo til að vinnutíma.

Sérfræðingar og bankastjórar hafa endað á spítala vegna streitu. Einn starfsmaður lést í maí eftir að hafa unnið meira en 100 klukkustundir á viku til að klára tveggja milljarða dala kaupsamning.

Yuliya Lavysh var ein þeirra sem var himinlifandi þegar hún fékk fyrst starfstilboð frá Bank of America eftir að hafa útskrifast úr háskóla. Hún hætti hins vegar árið 2022 eftir þriggja ára starf í Chicago. Hún segir að henni hafi oft verið haldið í vinnuna til fimm um morguninn.

Eitt skipti var hún á leiðinni heim með leigubíl klukkan fjögur um nóttina þegar yfirmaður hennar óskaði eftir frekari breytingum á tillögu til viðskiptavinar og neyddist til að snúa við.

Roy Wang starfaði sem fjárfestingarbankastjóri í útibúi í Tókýó þar sem hann skráði vinnustundirnar sínar samviskusamlega. Þegar mannauðsdeildin sagði honum að hann væri að vinna of mikið sögðu stjórnendur honum að ljúga til um vinnustundirnar og skrá aðeins niður það sem væri leyfilegt.

Reynsla þessara starfsmanna og fleiri stangast augljóslega á við vinnureglur bankans sem voru settar í gang fyrir áratug síðan til að koma í veg fyrir óhóflega yfirvinnu. Ljóst var að bankinn þyrfti að taka á vinnustaðamenningu eftir að starfsnemi bankans í London lést af völdum flogakasts eftir að hafa unnið nokkrar nætur í röð.

Á hverju ári byrja þúsundir ungmenna að vinna í geiranum sem er með orðspor fyrir að breyta duglegum starfsmönnum í milljónamæringa. Margir þeirra segja hins vegar að 12 tíma vinnudagar, sex daga vikunnar, séu mjög slæmir fyrir andlega og líkamlega heilsu þeirra.

Bankar hafa reynt að draga úr vinnuálaginu og komið fyrir vernduðum helgidögum en margir starfsmenn Bank of America segja að þessar stefnur séu oft hunsaðar af stjórnendum. Þegar stór verkefni liggja fyrir geta margir starfsmenn búist við að vinna 120 klukkustundir á viku.