Engum blöðum þarf að fletta um að fjar- og heimavinna færðist mikið í aukana í og í kjölfar Covid-faraldursins. Mark Dixon, forstjóri alþjóðlegu Regus-samstæðunnar, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið að flestir vilji þó síður vinna heima yfir alla vikuna, m.a. til að starfa í kringum annað fólk og fá frið frá fjölskyldunni. Almennt sækist fólk í að starfa nálægt heimili sínu, jafnvel með möguleika á að hjóla eða ganga á vinnustað.
„Við bættum við okkur 104 stöðum í júní sem er met yfir einn mánuð hjá okkur. Um 80% þeirra voru í úthverfum eða nálægt íbúðabyggðum úti á landi.“
Umrædd breyting á viðhorfi til vinnustaða er þegar farin að hafa veruleg áhrif á fasteignamarkaði með atvinnuhúsnæði í stórum borgum þar sem samgöngur eru ekki eins og best verður á kosið. Það sjáist m.a. á lágu nýtingarhlutfalli atvinnuhúsnæðis. Mark segir að á næstu árum verði áhugavert að fylgjast með borgum á borð við New York, San Francisco og London, þar sem íbúðaverð er mjög hátt og launafólk eyðir miklum tíma í samgöngur.
Fasteignamarkaðir breytist þó hægt, m.a. þar sem langtíma leigusamningar eru algengir. Annars væru flestöll fyrirtæki farin að hugsa um að minnka við sig skrifstofuhúsnæði og bjóða upp á meiri fjarvinnu að mati Mark.
„Þegar fyrirtæki og frumkvöðlar eru spurð um hvað sé það mikilvægasta í rekstrinum, þá er svarið yfirleitt mannauðurinn. Sjaldnast benda þeir á fasteignirnar sem þeir leigja. Það er hörð samkeppni um hæft fólk og því er mikilvægt að tryggja hentug vinnusvæði fyrir starfsfólk.“
Hrósar Frökkum
Þó svo að Mark telji að það sé einnig íslenskum fyrirtækjum í hag að bjóða upp á aukinn sveigjanleika með góðri vinnuaðstöðu í fjarvinnu þá hafi fasteignamarkaðir þar sem fólk býr tiltölulega nálægt skrifstofum fyrirtækja sinna, líkt og á Íslandi og í Danmörku, orðið fyrir litlum áhrifum af framangreindri þróun.
Í þessu sasmhengi hrósar hann átaki franskra stjórnvalda um að styðja minni sveitarfélög í að byggja upp góða vinnustaði.
„Stjórnvöld víða halda bara áfram að breikka vegi til að draga úr umferð. Framsýn stjórnvöld munu hins vegar horfa fremur til að draga úr þörfinni á að ferðast jafn mikið innan borgar, t.d. með því að auðvelda samþykktarferlið þegar kemur að breytingum á atvinnuhúsnæði nálægt íbúðabyggðum. Við höfum til að mynda komið að nokkrum verkefnum þar sem bankabyggingum var breytt í nútímalegri vinnustaði.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Regus í Viðskiptablaði vikunnar. Þar ræðir Mark nánar um breytta vinnuhætti og framtíð skrifstofunnar.