Kjarval ehf., sem heldur utan um rekstur vinnustofu Kjarvals á efstu hæð við Austurstræti 12, hagnaðist um 61 milljón króna á síðasta ári og nær þrefaldaði hagnað ársins 2022.

Vinnustofa Kjarvals opnaði í upphafi árs 2019. Þar er rekin skrifstofu- og samkomurými sem fyrirtæki og einstaklingar kaupa aðgang að og nýta undir ráðstefnu- og fundarhöld, vinnu og afþreyingu.

Rekstrartekjur félagsins jukust um 26% á milli ára, úr 458 milljónum í 575 milljónir. Þá jókst rekstrarhagnaður um 49 milljónir, úr 32 milljónum í 81 milljón.

Eignir námu 240 milljónum í lok árs 2023, skuldir 142 milljónum og eigið fé 98 milljónum. Eiginfjárhlutfall var því 40,7% í árslok.

Stærsti hluthafi Kjarval er GO loyalty solutions ehf. með 60% hlut en það félag er til helminga í eigu Hálfdánar Steinþórssonar og Alexanders Arons Gylfasonar. Þá á M9, félag í eigu Aðalsteins Jónssonar Þorsteinssonar, 20% hlut sem og félagið G 47, sem er í eigu Hrannars Péturssonar.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.