Fjárfestar virðast krefjast mestrar ávöxtunar af ríkisskuldabréfum ef miðað er við núverandi verðlagningu og arðsemi. Fjallað er um málið í pistli sem hagfræðingurinn Brynjar Örn Ólafsson skrifar í Viðskiptablaðið sem kom út í morgun.
Þau gögn sem Brynjar styðst við sýna að sú ávöxtunarkrafa sem gerð er til ríkisskuldabréfa er um 7%, 5% til leiguhúsnæðis en minnst til hlutabréfa eða 4%. Lítil breyting hefur verið á þessum gildum frá áramótum og ef miðað er við árin aftur til 1995 er arðsemiskrafa til hlutabréfa nærri sögulega meðaltali.
Í pistlinum er tiltekið að nýlegar þjóðhagsspár Íslandsbanka og Arion banka styðja við réttleika kröfunnar til ríkisskuldabréfa en að nýjasta spá Seðlabanka Íslands bendi fremur til að hún ætti að vera nær 6%.
Í samtali við Viðskiptablaðið bendir Brynjar á að þrátt fyrir um þriðjungslækkun Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar (OMXI15) frá árinu 2021 hafi arðsemiskrafa til hlutabréfa hækkað um tvær prósentur í 4% á meðan ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf reis mun meira eða um fjórar prósentur. Í fjármálafræðum sé viðtekin venja að bæta að minnsta kost við 2% áhættuálagi við ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa við verðlagningu hlutabréfa.
Verðlagning á húsnæði hafi tekið litlum breytingum undanfarin ár þrátt fyrir mikla hækkun vaxta. Þetta skýrist einkum af því að samhliða um 33% verðhækkun húsnæðis hafa leigutekjur haldist í hendur við hækkunina. Ekki sé á vísan að róa með áframhaldandi sömu þróun þar sem hagtölur sýna að hlutfall leigukostnaðar á móti launum hefur ekki verið hærra síðan árið 1985.